Segir stöðuna óviðunandi

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Staðan, hún er óviðunandi,“ segir Alma Möller landlæknir um ástandið á bráðamóttökunni í samtali við mbl.is.

„Þetta á sér auðvitað mjög langa sögu og embættið hefur sinnt eftirlitshlutverki mjög reglulega. Við fórum og gerðum úttekt 2018 og skiluðum skýrslu um það og höfum síðan margoft farið í eftirlit og bent á vandann og hvað þurfi að gera,“ segir Alma.

Síðast fór embætti landlæknis í eftirlit á bráðamóttökuna 30. maí og í kjölfarið var minnisblaði skilað til heilbrigðisráðherra bæði 2. júní og 8. júní. Síðan þá hefur viðbragðsteymi heilbrigðisráðuneytisins um bráðaþjónustu í landinu verið stofnað og segist Alma binda miklar vonir við það.

„Ekki til neinar skyndilausnir“

„Málefnin sem endurspeglast í stöðunni á bráðamóttökunni eru auðvitað mjög flókin og þau eru háð utanaðkomandi áhrifum. Þetta hefur farið versnandi yfir mjög langan tíma og þess vegna eru ekki til neinar skyndilausnir, því miður, og þess vegna hef ég sem landlæknir lagt áherslu á samstarf Landspítala og heilbrigðisráðuneytis en líka allra þeirra sem sinna bráðaþjónustu í landinu enda endurspeglast það í þessu viðbragðsteymi,“ segir Alma.

Hún bætir við að viðbragðsteymið eigi að vinna mjög vítt. Skoða þurfi aðsóknina á bráðamóttöku, ferla innan spítalans og útskriftir af bráðamóttöku.

Bráðamóttaka Landspítalans.
Bráðamóttaka Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alma segir áskoranir bráðamóttökunnar margþættar og risavaxnar. Í fyrsta lagi sé mönnun áskorun og síðan þurfi að auka fjölbreytni í úrræðum fyrir aldraða. Hún bendir einnig á að húsnæði spítalans sé óviðunandi. „Við erum alltof ,alltof sein að byggja nýjan spítala. Síðan hefur auðvitað heimsfaraldur Covid-19 sem hefur staðið þennan langa tíma ekki bætt úr. Svo þetta er ofboðslega snúin staða.“

„En ástandið er óviðunandi og uppfyllir ekki faglegar kröfur þegar álagið er sem mest. Þetta röktum við allt í skýrslunni 2018 og allt það sem þar er sagt stendur enn fyrir sínu,“ bætir Alma við.

Ekki auðvelt fyrir Landspítala að bregðast við

Embætti landlæknis hefur að sögn Ölmu engin önnur úrræði en að benda á og beina tilmælum til stofnana. Við höfum auðvitað gert það ítrekað en af því að þetta er svo flókið og þarf aðkomu svo margra þá er auðvitað ekki auðvelt fyrir Landspítala að bregðast við.“

Fjölmiðlar hafa undanfarna daga greint frá alvarlegri stöðu á Landspítalanum. Nú síðast greindi Morg­un­blaðið frá því að móðir hefði þris­var á tíu dög­um farið með dótt­ur sína þangað til að fá loks grun sinn staðfest­an um að dótt­ir­in, ný­bökuð móðir, væri með heila­himnu­bólgu.

Alma segist ekki vita til þess að margir hafi kvartað til embættisins vegna stöðunnar á bráðamóttökunni. En fólk getur fært fram formlega kvörtun og komið með ábendingar. „Svo auðvitað verða óvænt atvik og það er eitthvað um slíkt,“ segir Alma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert