„Sleðahópar frá björgunarsveitum frá Suðausturlandi eru líklega rétt ókomnir að fólkinu,“ sagði upplýsingafulltrúi Landsbjargar um hálf tólf leytið í kvöld.
Björgunarsveitir á Suðurlandi, Suðausturlandi og Austurlandi voru kallaðar út í dag vegna neyðarkalls frá 14 manna gönguhópi sem var á leið niður Hvannadalshnjúk í sunnanverðum Vatnajökli.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, sagði í samtali við mbl.is að hópurinn væri vanur en bilun hafi orðið í GPS kerfi þeirra.
Hópurinn hafi ákveðið að halda áfram leið sinni en lét vita af sér, og voru hópar frá björgunarsveitum sendir á móti gönguhópnum.
Skyggnið hefur versnað og gönguhópurinn virðist hafa villst á leið og var þá bætt í björgunaraðgerðir um kvöldmatarleytið og kallað eftir aðstoð með snjósleðum.
„Staðan er þannig að það er enginn slasaður í hópnum en þau eru greinilega í vandræðum með að komast niður en það er orðið mjög lélegt skyggni uppi á jöklinum og farið að kvölda og kólna. Menn vildu þar að leiðandi hafa allan vara á og ná til þeirra áður en það stefndi í eitthvað óefni,“ segir Davíð.
Hann segir að hópurinn sé búinn að vera í góðum samskiptum við lögreglu og Neyðarlínuna síðan þau höfðu fyrst samband. Margir séu orðnir þreyttir og einhverjir mögulega orðnir kaldir.