Fjallkonan hreyfði við hjörtum margra

Samfélagið brást við ávarpi Sylwiu.
Samfélagið brást við ávarpi Sylwiu. mbl.is/Óttar

Fjallkonan í Reykjavík í ár var Sylwia Zajkowska og flutti hún ljóð eftir Brynju Hjálmsdóttur. Sylwia er pólsk að uppruna en hefur verið búsett á Íslandi um langa hríð. 

Fjöldi fólks hefur brugðist við ávarpi Sylwiu á samfélagsmiðlum. Einhverjir lýstu óánægju sinni með að fjallkonan væri ekki af íslenskum uppruna, en langflestum þótti flutningurinn áhrifamikill og Sylwia kjörin í hlutverkið.

Snerti við mörgum

Forsetafrú Íslands, Eliza Reid, birti mynd af þeim hjónum ásamt fjallkonunni, forsætisráðherra og eiginmanni hennar. Við myndina skrifaði hún að það hafi glatt hana einstaklega að heyra flutning Sylwiu á ljóði Brynju. 

Athugasemdir við þá færslu lýstu eindreginni ánægju með flutning fjallkonunnar og fleiri en einn sögðust hafa tárast. 

Þurfum að venjast erlendum hreim

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku, var snortinn af ávarpinu. Hann birti færslu í facebook-hópnum Málspjalli, þar sem hann sagði mikilvægt að íslenska þjóðin vendi sig á að hlusta á íslensku með erlendum hreim. Þannig komum við til móts við fólk sem vilji tala íslensku en hefur ekki náð henni fullkomlega á sitt vald. 

Kvartanir um erlendan hreim gera ekki annað en fæla fólk frá því að læra íslensku og stuðla að því að hér komi upp hópar fólks sem ekki kann málið og einangrast í samfélaginu. Viljum við það?

Þessi færsla hans vakti mikla lukku. Fólk tók undir með Eiríki í athugasemdum og einhverjir lýstu því að ljóðið hefði ekki verið jafn áhrifamikið, hefði það ekki verið lesið með erlendum hreim. 

Frábært val á fjallkonu

Athugasemdir við færslu Reykjavíkurborgar um ávarp fjallkonunnar voru einróma á þann veg að Sylwia væri glæsileg og að um frábært val á fjallkonu væri að ræða.

Neikvæð viðbrögð stórmerkileg

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir kveðst á twitter furða sig á neikvæðum viðbrögðum tiltekinna einstaklinga vegna valsins á fjallkonunni. Það sé ekki í samræmi við kröfur þess sama fólks, að þeir sem hingað flytji aðlagist íslenskum hefðum og siðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert