Dagskrá verður víða um land í dag í tilefni þjóðhátíðar. Athöfn á vegum Alþingis og forsætisráðuneytisins hefst á Austurvelli í Reykjavík kl. 11.10 og verður henni sjónvarpað og útvarpað á RÚV. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur hátíðarræðu.
Klukkan 13 leggja af stað skrúðgöngur frá Hagatorgi og Hallgrímskirkju og í báðum tilvikum er fólki stefnt í Hljómskálagarðinn. Þar og í nágrenni verður ýmislegt skemmtilegt í boði; tónlist og sprell. – Þjóðhátíðardeginum 17. júní verður fagnað með fjölbreyttri dagskrá í Árbæjarsafni. Þá bregður svo við að efnt verður til hátíðahalda í úthverfum. Í frístundagarðinum við Gufunesbæ verður hátíð milli kl. 14 og 17 en í lokin eru tónleikar þar sem fram kom Espólín, 5K á kortið, Dóra og döðlurnar og Jón Jónsson. Í Breiðholti verður hátíðardagskrá með leikjum og ýmsu skemmtilegu á Leiknisvellinum við Austurberg milli kl. 13 og 16.
Í Kópavogi verða hátíðahöld í tilefni þjóðhátíðardagsins á alls fimm stöðum; við menningarhúsin í Borgarholti, Fífuna við Dalsmára, í Fagralundi í Fossvogsdal, við Salalaug og Kórinn í Vatnsendahverfi. Skemmtidagskrá er á öllum stöðum. Svæðin verða opnuð kl. 12 sem varir til 17.00. Hátíðardagskrá hefst svo klukkan 14, nema við Menningarhúsin þar sem hún hefst kl. 13.30. Þar flytur ávarp Ásdís Kristjánsdóttir, sem nú fyrir nokkrum dögum tók við sem bæjarstjóri í Kópavogi. Tvær skrúðgöngur verða í tengslum við 17. júní í Kópavogi. Önnur sem leggur af stað frá MK klukkan 13.00 og gengur sem leið liggur að Menningarhúsunum. Hin leggur af stað frá Hörðuvallaskóla kl. 13.30 og gengur í Kórinn.
Á Akureyri leggur skrúðganga af stað kl. 12.45 frá Gamla húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti og fer í Lystigarðinn þar sem hátíðahöld hefjast um kl. 12. Þar mun Kammerkór Norðurlands syngja þjóðsönginn og fjallkonan ávarpar gesti garðsins, en hún er Hildur Lilja Jónsdóttir, nýstúdent frá MA. Í framhaldinu verður dagskrá í Minjasafninu í Innbænum frá kl. 14-16 – og um kvöldið verður skemmtun og spilverk á Ráðhústorginu.