„Þetta er alveg ómöguleg staða að vera með ferju sem ekki er hægt að treysta á,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson um Breiðafjarðarferjuna Baldur. Hann segir að smíða þurfi nýtt skip.
Baldur var á reki um 300 metra frá landi í rúmar fimm klukkustundir í gær vegna bilunar en ferjan hefur ítrekað bilað á síðustu árum. Í yfirlýsingu frá bæjarstjórn Vesturbyggðar og sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps var þess krafist að stjórnvöld myndu bregðast við með tafarlausum úrbótum.
„Staðan er auðvitað þessi að það er Eimskip sem á og rekur Baldur. Vegagerðin hefur verið í samtölum við Eimskip um hvernig sé hægt að tryggja það að skipið standi þessar kröfur betur en raun ber vitni,“ segir Sigurður.
Sigurður segir að leitað hafi verið að skipi til að kaupa eða leigja í meira en eitt og hálft ár en að ekki hafi fundist skip sem henti á þessu hafsvæði.
„Þess vegna er búið að taka ákvörðun um að Herjólfur III muni sigla þarna þangað til við verðum komin með nýtt skip,“ segir Sigurður en bætir við að smíða þurfi nýtt skip sem uppfyllir auk þess orkuskiptakröfur okkar.
„Það er ekki búið að taka ákvörðun um það að setja það í ferli. En það er búið að taka ákvörðun um að það verði gert,“ segir hann. Þá eru engar tímasetningar komnar á nýja skipið.
Stefnt er að því að Herjólfur III muni taka við siglingum á Breiðafirði haustið 2023. Sigurður segir að til þess að Herjólfur III geti siglt á milli Stykkishólms og Brjánslæks þurfi að breyta hafnarmannvirkjum.
„Það verður gert á þessu ári og fram á það næsta. Þetta eru talsverðar framkvæmdar og þær verða kláraðar þannig að hann geti siglt næsta haust,“ segir Sigurður.
Sigurður hefur fulla trú á því að Herjólfur III dugi þar til að nýtt skip sé klárt. „Hins vegar viljum við auðvitað vera komin með skip fyrr eða seinna sem uppfyllir okkar kröfu um orkuskipti,“ bætir hann við.