VG fordæmir ákvörðun SÍ varðandi trans konur

Stjórn Vinstri Grænna hvetur Sundsamband Íslands til að endurskoða ákvörðun …
Stjórn Vinstri Grænna hvetur Sundsamband Íslands til að endurskoða ákvörðun sína um bann við þáttöku trans kvenna á mótum sambandsins. Styrmir Kári

Stjórn Vinstri grænna hefur hvatt Sundsamband Íslands til að endurskoða ákvörðun sína um bann við þátttöku trans kvenna á mótum sambandsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem stjórn Vinstri grænna sendi frá sér í kvöld.

Eins og greint hefur verið frá kaus Sundsamband Íslands með tillögu Alþjóðasundsambandsins sem kemur í veg fyrir að trans konur geti keppt með öðrum konum í sundi. 

Í ályktun sem var samþykkt einróma á fundi stjórnarinnar í kvöld minna meðlimir stjórnarinnar á að Ísland hafi verið öflug rödd mannréttinda og jafnréttis á alþjóðavettvangi. 

Hvetur þá stjórn VG Sundsamband íslands til að endurskoða ákvörðun sína og taka þau fram að þeirra mati sé hún í andstöðu við stefnu Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) sem hefur unnið náið með Samtökunum 78 og Trans ísland síðastliðin ár. 

Að mati stjórnar VG er þetta í andstöðu við þá vinnu sem hefur verið farið í til að bæta réttindi trans íþróttafólks og trans barna innan íþrótta. Segja þau að umræðurnar sem hafa sprottið upp í kjölfar þessarar ákvörðunar ýti undir fordóma og hatursorðræðu í garð trans fólks. 

Í lokin tekur stjórnin fram í ályktun sinni að þeim finnist mikilvægt að nýlega samþykkt aðgerðaráætlun forsætisráðherra í málefnum hinsegin fólks komist að fullu til framkvæmda sem fyrst. 

„Má þar meðal annars nefna skýrara lagaákvæði um hatursorðræðu og hatursglæpi þannig að þau veiti fullnægjandi vernd fyrir hinsegin fólk auk aðgerða til að tryggja aðgengi barna að íþrótta- og æskulýðsstarfi. Nauðsynlegt er að slík vinna skili sér alla leið innan íþróttahreyfingarinnar allt frá barna-og ungmennastarfi til afreksíþrótta,“ kemur fram í ályktun stjórnar VG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert