Bílastæðasjóður brýtur á fötluðum

Traðarkot, bílastæðahús við Hverfisgötu í Reykjavík.
Traðarkot, bílastæðahús við Hverfisgötu í Reykjavík. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Borgarlögmaður telur Bílastæðasjóð Reykjavíkur gerast brotlegan við umferðarlög, og þannig réttindi fatlaðra, með því að rukka handhafa stæðiskorta fyrir notkun bílastæða í bílastæðahúsum. 

Þetta kemur fram í minnisblaði borgarlögmanns til borgarstjóra. 

Öryrkjabandalag Íslands hefur haldið málinu á lofti og meðal annars farið fram á að aðgengis- og samráðsnefnd Reykjavíkurborgar álykti um að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða skuli undanskildir gjaldskyldu í borgarlandinu, hvort sem er í bílastæðahúsum, bílaskýlum eða undir beru lofti. 

Ný lög samþykkt árið 2019

Í minnisblaðinu er forsaga ágreiningsins rakin, sem og laga- og reglugerðabreytingar á tilhögun gjaldtöku á bílastæðum í sveitarfélögum, þjóðlendum og þjóðgörðum undanfarin ár.

Árið 2019 voru ný umferðarlög samþykkt þar sem skýrt er kveðið á um að handhöfum stæðiskorta sé heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án greiðslu.

Áður hafði þó aðeins verið kveðið á um heimildir sem stæðiskort veittu í reglugerð. Í þeirri nýjustu stóð að handhafa stæðiskorts væri heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði (stöðureit) án greiðslu. Með stöðureit er átt við bifreiðastæði á götum og opnum svæðum. 

Vísa á framkvæmdina í Reykjavík

Bergur Þorri Benjamínsson, formaður málefnahóps ÖBÍ um aðgengismál, segir í samtali við mbl.is að ástæðan fyrir að bílastæðahús séu sérstaklega tekin fyrir, sé sú að tæknibúnaðurinn sé með þeim hætti að fólk þurfi að framvísa kvittun fyrir greiðslu til að komast út. 

Löngum hefur ÖBÍ kallað eftir betri tækniúrlausn í bílastæðahúsum eða notkun stæðiskorta svo að hliðin á bílastæðahúsunum ráði því ekki hvort að hreyfihamlaðir fái notið réttinda sinna. 

Að sama skapi hefur verið tekið upp nýtt kerfi í bílastæðahúsinu við Hörpu svo að handhafar stæðakorta eru nú rukkaðir fyrir notkun. Þá segir Bergur Þorri að þjóðgarðarnir rukki hreyfihamlaða einnig um bílastæðagjöld. Þegar forsvarsmenn ÖBÍ hafa bent á að það sé ólöglegt, hafi báðar aðilar bent á framkvæmdina hjá bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar. 

Því segir Bergur Þorri mjög brýnt að framkvæmdin verði leiðrétt hjá Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert