Nýtir sumarið í að „íhuga alvarlega“ formannsframboð

Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar ætlar að íhuga málin.
Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar ætlar að íhuga málin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, íhugar núna að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar en ætlar að nota sumarið til að eiga samtal við grasrótina og fólk innan flokksins áður en hún tekur endanlega ákvörðun. Þetta staðfestir Kristrún í samtali við mbl.is í dag.

Reiknar Kristrún með að taka ákvörðun um miðjan ágúst eða seinna og ætlar að nýta tímann fram að því til að tala við fólkið í flokknum. „Það skiptir miklu máli að ég nái að heyra í sem flestum með hvað fólk vill sjá og hvort það samrýmist mínum áherslum,“ segir Kristrún og ítrekar mikilvægi samtals áður en ákvörðun er tekin.

„Ég er að íhuga þetta alvarlega,“ segir Kristrún og svarar því játandi, hvort hún hafi fundið fyrir stuðningi víðs vegar að fyrir því að hún sækist eftir formennskunni. „Ég hef fengið alls konar hvatningu en mér finnst það skipta máli að fara ekki í svona verkefni án þess að það sé ágætur samhljómur hjá fólki.“

Segist hún vera mjög þakklát fyrir allan þann stuðning og hvatningu sem hún hefur fundið fyrir hingað til. 

„Við erum ekkert í slagtogi“

Spurð hvort hún muni þá eiga samtal við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, áður en hún tekur lokaákvörðun segir Kristrún að auðvitað tali hún og Dagur reglulega saman, eðli málsins samkvæmt. 

„Hann er bara inni í vinnumengi mínu eins og margir aðrir. Ég mun bara taka mína ákvörðun byggða á því hvaða tilfinningu ég fæ frá flokknum og ég held að hann muni gera það líka. Við erum ekkert í slagtogi frekar en aðrir.“

Dagur B. Eggertsson og Kristrún Frostadóttir hafa helst verið nefnd …
Dagur B. Eggertsson og Kristrún Frostadóttir hafa helst verið nefnd í baráttunni um formennsku Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert