Verkefnastofa borgarlínu hefur ákveðið að framkvæmdalokum fyrstu lotu borgarlínunnar verði skipt í tvennt.
Í uppfærðri áætlun sem kynnt var í dag kemur fram að áætlað sé að leggurinn frá Hamraborg að miðbæ verði tilbúinn árið 2026 og leggurinn frá Ártúnshöfða að miðbænum verði tilbúinn ári síðar, árið 2027.
Upphaflega var vonast til þess að framkvæmdalok fyrstu lotunnar yrðu árið 2025. Nú er aftur á móti ljóst að vagnar munu ekki keyra leiðina Ártúnshöfða að miðbænum fyrr en tveimur árum síðar.
„Verkefnið er tæknilega flókið og þarf að stilla ýmsa þætti þess saman með öðrum verkefnum Samgöngusáttmálans sem fram undan eru eða eru þegar hafin. Þá hafa COVID-19 faraldurinn og stríðið í Úkraínu haft áhrif á virðiskeðjur,“ segir á vef borgarlínunnar.
Þar segir einnig að undirbúningur við aðrar lotur borgarlínunnar sé nú að hefjast og muni standa fram á næsta ár. Mun undirbúningur annarra lota vinnast samhliða lotu eitt, sem er sú lengsta.
Eins og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir munu þó vagnar borgarlínunnar hefja akstur árið 2025 og munu þeir aka frá Hamraborg til Háskóla Íslands, að því er segir á vef borgarlínunnar.