Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir í færslu á Facebook það ekki vera rétt að laun dómara og annarra æðstu embættismanna séu að lækka, þau séu leiðrétt núna um mánaðamótin og hækki svo frá 1. júlí um 6,9% frá þeirri leiðréttingu.
„Frá þeim tíma verða launin nákvæmlega þau sem þau eiga að vera lögum samkvæmt,“ skrifar hann.
Kjartan Björgvinsson, formaður Dómarafélags Íslands, sagði í færslu á Facebook fyrr í dag að laun dómara hefði verið „lækkuð fyrirvaralaust“ í morgun.
Þá segir Bjarni málið vera ósköp einfalt. „Það snýst um að útgreidd laun voru hærri en þau laun sem greiða átti lögum samkvæmt. Það er óþolandi að þetta hafi gerst en við því verður að bregðast.“
Þá bætir hann við að fráleitt sé að ræða um geðþóttaákvörðun fjármálaráðherra í þessu samhengi enda sé fjárhæðin lögákvæðin.
„Málstaður þeirra sem mótmæla því að nú eigi að leiðrétta ofgreidd laun er býsna aumur. Ég vænti þess að þeir vilji bera fyrir sig að hafa tekið við of háum launum undanfarin ár í góðri trú. Fyrir mér eru önnur rök yfirsterkari. Og munar miklu.“
Bjarni segir þá að þegar í hlut eiga æðstu embættismenn ríkisins, alþingismenn, ráðherrar, forseti lýðveldisins, dómarar, seðlabankastjóri og saksóknarar eigi ekki að þurfa opinberar skeytasendingar til að útskýra að rétt skal vera rétt.
„Að halda því fram, líkt og formaður dómarafélagsins gerir, að þetta einfalda mál snúist um rétt borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum stenst augljóslega enga skoðun.“
Hann segir málið miklu frekar snúast um það að fólkið í landinu eiga ekki að þurfa að hlusta á að það sé flókið fyrir æðstu embættismennina að skila því sem var ofgreitt úr opinberum sjóðum.
„Annað væri hrikalegt fordæmi og er ekkert minna en siðferðisbrestur.“