Réttindi barna virt að vettugi í faraldrinum

Bólusetningar í Laugardalshöll 17. janúar 2022.
Bólusetningar í Laugardalshöll 17. janúar 2022. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ákvarðanir hafa verið teknar, um afar íþyngjandi ráðstafanir sem varða börn með beinum hætti, án þess að mat hafi verið lagt á áhrif þeirra á börn.“

Þetta segir í fimmta kafla ársskýrslu umboðsmanns barna fyrir árið 2021 um stöðu barna í kórónuveirufaraldrinum. 

Ljóst er út frá skýrslunni sem var gerð opinber í dag að ýmis réttindi barna hafi verið virt að vettugi á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð.

Í ársskýrslunni er farið yfir starfsemi embættisins og helstu verkefni þess á árinu 2021. Eins og ber að skilja spilar kórónuveirufaraldurinn stórt hlutverk þar eins og hann gerði víðs vegar annars staðar árið 2021.

Kerfisbundnir veikleikar

Í skýrslunni er tekið fram að kórónuveirufaraldurinn hafi haft áhrif á öll svið daglegs lífs barna og að mati umboðsmanns barna leiddi það í ljós kerfisbundna veikleika í íslenskri stjórnsýslu. Er tekið fram í ársskýrslunni að þessir veikleikar hafi orðið til þess að ákvæði barnasáttmálans hafi ekki verið virt og að réttindi barna hafi lotið í lægra haldi. 

Þá bendir umboðsmaður barna á að ámælisvert er að ítrekað hafi verið teknar ákvarðanir sem varða börn án samráðs við þau. 

Segir umboðsmaður þetta skýrt merki um að íslensk stjórnvöld þurfi að stíga næstu skref í innleiðingu Barnasáttmálans með því að innleiða ferla sem tryggja að sjónarmið barna séu virt við ákvarðanatöku sem varða þau. 

Framkvæmd sýnatöku barna verulega ábótavant

Kemur fram í skýrslunni að umboðsmaður hafi sent bréf til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins varðandi framkvæmd PCR-sýnatöku á börnum. 

Að mati umboðsmanns var það ábótavant að börn hafi beðið lengi í biðröðum utandyra á köldum dögum og að framkvæmd sýnatöku hafi oft farið fram í óbarnvænu umhverfi. Jafnframt benti umboðsmaður á að starfsmenn sem tóku sýni skorti oft þjálfun í samskiptum við börn.

Umboðsmaður segir það gífurlega mikilvægt að börn upplifi sig örugg og aðstæður séu eins  barnvænar og kostur er. Í kjölfar bréfs umboðsmanns brást Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu við og bætti aðkomuna og þjónustu við börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert