Móðurfélagið í hærra skattaumhverfi

Elkem höfðaði mál á hendur ríkisskattstjóra til þess að fá …
Elkem höfðaði mál á hendur ríkisskattstjóra til þess að fá ákvörðunina fellda úr gildi. Sigurður Bogi Sævarsson

Í máli Elkem gegn íslenska ríkinu ræður úrslitum að lánið byggðist á svokallaðri fjárfestingaleið Seðlabankans, að mati Ásmundar G. Vilhjálmsson, sérfræðings í skattarétti. 

„Hér er verið að nýta leið sem er til, og hún er óskilorðsbundin í þeim skilningi að það kemur hvergi fram að ekki megi færa vexti af slíkum lánum."

Annars telur hann málið nokkuð hefðbundið mál um frádráttarbærni vaxta og ekki fela í sér neinar kúvendingar. 

Frádráttarbærni vaxtanna

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í gær á að ógilda ákvörðun ríkisskattstjóra, sem laut að því að lækka fjár­hæð gjald­færðra vaxta í skatt­skil­um félagsins Elkem um 160 millj­ón­ir ár­lega á ár­un­um 2015 til 2019, og beita álagi svo Elkem yrði að greiða milljarð íslenskra króna. 

Í dómn­um kom fram að með vís­an til þess að fé­lög í at­vinnu­rekstri hefðu al­mennt for­ræði á því hvernig þau kjósa að haga fjár­magns­skip­an sinni, þar með talið hvort fjár­magn beri rekst­ur­inn með eig­in fé eða láns­fé, var ekki fall­ist á að sýnt hefði verið fram á að að samningur milli félaganna hafi falið í sér skipti á fjármunum sem væru verulega frábrugðin því sem almennt gerist. 

Elkem hafði tekið lán hjá móðurfélagi sínu í Noregi, upp á 1,8 milljón króna í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans. Bar lánið 9 prósent vexti og voru þeir dregnir frá tekjuskattsstofni á grundvelli frádráttarheimildar sem heimilar slíkt, sé um að ræða kostnað sem gengur út á að afla tekna, tryggja þær eða halda þeim við. 

Níu prósent vextir í efra lagi

Ákvæði það sem ríkisskattstjóri byggði á kveður meðal annars á um að leiðrétta megi verðlagningu ef viðskiptakjör milli tengdra félaga, eru ekki sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum milli ótengdra félaga. 

„Það verður að játa fyrirtækjum ákveðið rekstrarlegt svigrúm,“ segir Ásmundur. Hann viðurkennir að níu prósent vextir séu í efri lagi, þó séu þeir ekki nógu háir til að „velta hlassinu.“

Þá telur Ásmundur að það geti haft áhrif í þessu máli að móðurfélagið sé staðsett í Noregi, þar sem greiddur er hærri skattur en á Íslandi, og því sé ekki hægt að líta á sem svo að hér sé verið að koma tekjum úr landi í þeim tilgangi að borga lægri skatta. 

Ríkisskattstjóri mótmælti því að skattaumhverfi móðurfélagsins skipti máli, enda snerist málið um Elkem hefði lækkað skattstofn sinn í þeim tilgangi að skapa gjaldeyrishagnað fyrir annað félag. Dómurinn leit engu að síður til þess í niðurstöðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert