„Í andlegu áfalli“ yfir hvalveiðunum

Hvalveiðar eru umdeildar.
Hvalveiðar eru umdeildar. mbl.is/Sigurður Ægisson

Stella Anton, einn liðsmanna samtakanna Sea Shepherd, segir síðustu daga hafa tekið á sjálfboðaliðina sem standa vaktina í Hvalfirði til að vekja athygli „á þessum siðferðilega og vistfræðilega hryllingi“. Hún segir suma munu eiga erfitt með að ná sér andlega eftir hvalveiðitímabilið.

Innlendum og erlendum sjálfboðaliðum Sea Shepherd í Hvalfirði hefur sl. vikur tekist að skrá og mynda alla hvali sem komið hefur verið með á land, auk þess að skoða hreinlætisástand við meðferðina á líkama dauðu hvalanna við kjötframleiðslustöðina.

Auka pressu á stjórnvöld

Stella segir að meginmarkmið samtakanna sé að auka pressu á stjórnvöld um að banna hvalveiðar.

„Við erum ánægð með að nýjasta tilkynningin frá matvælaráðherra sýnir að hún er að hlusta og taka jákvætt fyrsta skref í þessa átt. Þetta gerir okkur bjartsýn á framtíðina sem við höfðum hingað til haft á tilfinningunni að stjórnvöld væru að bregðast okkur með,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Aðspurð segir hún að aðgerðir samtakanna síðustu daga miði að því að kanna verklag hvalveiðiskipanna sem og að vekja athygli á hvalveiðum við strendur Íslands.

„Alþjóðlega skipsáhöfnin er enn á sínum fyrstu dögum úti á sjó og hefur hingað til aðallega verið að skoða hraðamöguleika Hvals 8 og Hvals 9 ásamt veiðimunstri þeirra og er að gera áætlun fyrir restina af hvalveiðitímabilinu.

Sjálfboðaliðunum okkar bæði á landi og sjó er að takast að draga að bæði innlenda og erlenda athygli á þessum siðferðilega og vistfræðilega hryllingi með því að birta fólki myndir af svívirtum og sundurskornum hvölum, og að auka pressu á íslensk stjórnvöld um að bregðast við og stöðva þessa úreltu, grimmu og vistfræðilega hræðilegu framkvæmd.“

Vantraustið virðist vera að dvína

Hún segir að enn sem komið er hafi samtökin ekki lent í neinu óvæntu í tengslum við herferð sína. Hins vegar hafi síðustu dagar tekið mikið á sjálfboðaliða samtakanna að sögn hennar.

„Það hafa verið erfið augnablik, sérstaklega hjá okkur sem stöndum vaktina í Hvalfirði og erum í andlegu áfalli yfir því sem við höfum orðið vitni að síðastliðnar tvær vikur, þrátt fyrir þá staðreynd að sum okkar á Íslandi, og líka nokkrir alþjóðlegir sjálfboðaliðar sem voru hér árið 2018, höfum orðið vitni að þessu áður og vissum við hverju var að búast,“ segir hún og bætir við að sum þeirra eigi eftir að eiga mjög erfitt að ná sér andlega eftir þetta hvalveiðitímabil.

Stella kveðst ánægð með áhugann hérlendis sem og út í heimi með starf samtakanna hér á landi. „Við erum mjög ánægð að sjá að tortryggnin og vantraustið sem mætti okkur fyrstu árin eftir að við stofnuðum Íslandsdeildina árið 2018 virðist vera að dvína og almenningur og önnur félagasamtök hafa hægt og bítandi verið að taka vel á móti okkur.“

Frá hvalskurði í Hvalfirði árið 2018.
Frá hvalskurði í Hvalfirði árið 2018. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert