„Ég varð að verða ástfangin af honum“

Björk Guðmundsdóttir leikkona brast í grát eftir að hafa sýnt einleikinn Stelpur og stráka en með hverri sýningu varð ferlið auðveldara og hún sneggri að jafna sig. Verkið fjallar um ofbeldi og fann Björk til mikillar samúðar með persónunni.

Hún lýsir því m.a. í myndskeiðinu hérna að ofan hvernig hún varð „að verða ástfangin“ af þeim sem beitti persónuna hennar ofbeldi.

Annalísa Hermannsdóttir leikstýrði einleiknum en þær Björk eru gestir í nýjasta þætti Dagmála. Handritið er skrifað af Dennis Kelly. Mattías Tryggvi Haraldsson þýddi það og settu listakonurnar, sem saman mynda sviðslistahópinn Fullorðið fólk, verkið upp víðsvegar um land.

Mikilvægt að tala um ofbeldi

Um persónuna segir Björk:

„Ég þurfti alveg að finna verkfæri til þess að fara úr henni af því að ég finn svo ótrúlega mikla samúð með henni. Maður þurfti að leyfa sér að gráta eftir sýningu og þá var það bara búið – til þess að taka þetta ekki með heim,“ segir Björk í Dagmálum.

Annalísa segir að verkið sé launfeminískt og að það sé skrifað þannig að það nái frekar til fólks sem hefur ekki áður gefið sig að umræðunni um ofbeldi.

„Það er alltaf mikilvægt að tala um ofbeldi á meðan við búum enn í heimi þar sem allt þetta rugl er að gerast,“ segir Annalísa. „Það er alltaf mikilvægt að tala um það og reyna að skilja það og allir reyni að líta í eigin barm. Það er það sem listin getur gert: Að reyna að láta fólk spegla sig í einhverjum sögum og segja nógu margar mismunandi sögur um ofbeldi og hvernig það birtist.“

Hér má nálgast þáttinn í fullri lengd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert