Enginn umsækjenda hafi verið hæfur

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti í Dalabyggð, segir sveitarstjóra í sveitarfélagi …
Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti í Dalabyggð, segir sveitarstjóra í sveitarfélagi eins og Dalabyggð þurfa ganga í öll verk. mbl.is/Sigurður Bogi

Umsækjendur um starf sveitarstjóra Dalabyggðar voru ekki hæfir til að sinna þeim verkefnum sem sinna þarf í sveitarfélaginu. 

Þetta segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti sveitarstjórnar Dalabyggðar, í samtali við mbl.is.

Upphaflega sóttu þrettán um starfið en var öllum umsóknum hafnað. Í sam­ráði við Hagvang var haft sam­band við nokkra aðila sem voru á skrá ráðning­ar­stof­unn­ar og kæmu til greina sem næsti sveit­ar­stjóri. Björn Bjarki Þor­steins­son var að lokum ráðinn sveitarstjóri.

Það vakti athygli að nýr sveitarstjóri hafi ekki verið meðal umsækjenda. Hvers vegna ákváðuð þið að fara þessa leið?

„Einfaldlega vegna þess að það var enginn af umsækjendunum sem við töldum hæfan til þess að fást við þau verkefni sem við þurfum að fást við. Það eru auðvitað mörg dæmi um að menn séu ráðnir án auglýsinga,“ segir Eyjólfur Ingi.

Sveitarstjóri gangi í öll verk

Nýr sveitarstjóri er með rúmlega 1,7 milljónir króna á mánuði í laun og íbúar sveitarfélagsins eru 665 talsins. Kom til skoðunar að lækka launin?

„Ef þú ætlar að fá framkvæmdastjóra í sveitarfélag af þessari stærðargráðu þá verður þú að greiða sömu laun og eru annars staðar. Ólíkt mörgum stærri sveitarfélögum þá er sveitarstjóri í svona litlu sveitarfélagi „altmuligtmand“.“

Spurður nánar út í hvers konar verkefni það séu sem sveitarstjóri Dalabyggðar þurfi að fást við segir Eyjólfur Ingi að bæjarstjórar í stærri sveitarfélögum hafi marga undirmenn á meðan sveitarstjóri Dalabyggðar þurfi að ganga í öll verk. 

„Það má vel vera að menn sjá ofsjónir yfir laununum en svona er bara staðan. Ef þú ætlar að hafa hlutina í lagi þá verður þú að greiða laun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert