„Ég varð hrærður og meyr þegar ég mætti á svæðið,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í samtali við mbl.is á aðdáendasvæði stuðningsmanna íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í Piccadilly Gardens í Manchester í dag.
Ísland mætir Ítalíu í öðrum leik sínum í D-riðli Evrópumótsins á akademíuvelli Manchester City klukkan 17 að staðartíma, eða klukkan 16 að íslenskum tíma.
Bæði lið þurfa nauðsynlega á sigri að halda til þess að auka möguleika sína á sæti í 8-liða úrslitum keppninnar.
„Við erum öll í sama liði og þó það sé meiri áhuga á karlaknattspyrnu en kvennaknattspyrnu heima á Íslandi, alla jafna, þá skiptir það okkur Íslendinga engu máli þegar kemur að landsliðunum okkar því þá eru allir tilbúnir að mæta og styðja.
Það er líka þannig að þegar að við Íslendingar eigum landslið á stórmóti, þá mætum við Íslendingar. Ég held að við séum vel á þriðja þúsund hérna en ég sé ekki marga frá Ítalíu,“ sagði Guðni.
Guðni kom til Englands í gær og hitti meðal annars leikmenn og starfslið íslenska liðsins á liðshóteli þeirra í Crewe í hádeginu í gær.
„Það var ótrúlega gaman að hitta stelpurnar og mikill heiður fyrir mig persónulega. Það var gríðarlega mikil fagmennska í kringum liðið og metnaður. Spennustigið var hárrétt stillt og það voru allir staðráðnir í að vinna ítalska liðið.
Á sama tíma var létt yfir öllum og fólk tók hlutunum ekki og alvarlega. Það var virkilega gaman að sjá hversu ólíkar þær eru en á sama tíma eru þær stórkostlegt lið og allar tilbúnar að róa í sömu átt til þess að ná árangri.
Ég held að það sé engin spurning að við séum með lið sem getur farið alla leið í þessu móti í ár,“ bætti Guðni við í samtali við mbl.is.