„Samræði við eigin niðja er alltaf refsivert en svo er ákært fyrir nauðgunina og þá verður dómarinn að fara yfir skilyrðin fyrir nauðguninni.“
Þetta segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari um nýbirtan nauðgunardóm þar sem faðir var dæmdur fyrir að brjóta gegn dóttur sinni, en dómurinn hefur hlotið mikla gagnrýni á samfélagsmiðlinum Twitter.
Faðirinn var sakfelldur fyrir nauðgun gagnvart barni sínu, sifjaspell, kynferðislega áreitni gagnvart barni sínu, brot í nánu sambandi og vörslu á barnaníðsefni. Var hann dæmdur til að sæta fangelsi í þrjú og hálft ár og greiða dóttur sinni um 2.9 milljónir króna í miska- og skaðabætur.
Fjöldi fólks hefur gagnrýnt dóminn á Twitter eftir að Hildur Lilliendahl Viggósdóttir deildi skjáskoti af setningu úr dómnum sem segir að faðirinn hafi átt að ganga ríkt eftir því að skýrt og ótvírætt samþykki fyrir kynferðismökunum lægi fyrir.
Að sögn Kolbrúnar er dómarinn þarna að rekja þau skilyrði sem eru fyrir nauðgun samkvæmt lagabókstafnum, en faðirinn var bæði sakfelldur fyrir nauðgun, samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga, sem og sifjaspell, samkvæmt 200. gr. almennra hegningarlaga. Þegar kemur að sifjaspellum skiptir samþykki ekki máli, það er alltaf brot.
„Þarna er verið að ákæra fyrir sifjaspellsákvæði, en það er alltaf refsivert að hafa kynferðismök við eigin niðja. Í þessu tilviki er þó ekki um að ræða barn sem er undir 15 ára aldri, heldur einstakling sem er orðinn fullorðinn. Þá er einnig ákært fyrir nauðgun og þá þarf alltaf að sýna fram á að um sé að ræða skort á samþykki. Það er í raun það sem dómarinn er að gera. Það er verið að fara yfir þessi skilyrði um ástening sem eru í lögunum. Það kannski skýrir þessa umfjöllun,“ segir Kolbrún.
Spurð hvort refsingin í málinu sé of væg að hennar mati segir Kolbrún að í nauðgunarmálum sé oft dæmd þriggja til þriggja og hálfs árs fangelsisvist. Það sé þó núna á borði Ríkissaksóknara að ákveða hvort dómnum verði áfrýjað.