Niðurlægður af kennaranum fyrir framan bekkinn

Gunnar Ingi Ingvarsson.
Gunnar Ingi Ingvarsson. Ljósmynd/Aðsend

Gunn­ar Ingi Ingvars­son, fyrr­um nem­andi í Víðistaðaskóla, kveðst ekki hafa getað treyst kenn­ur­um í grunn­skóla eft­ir að hafa verið niður­lægður af stærðfræðikenn­ara í ung­linga­deild sem gerði grín að þyngd hans fyr­ir fram­an aðra nem­end­ur. „Fat boy!“ skrifaði kenn­ar­inn upp á töflu und­ir nafn Gunn­ars og teiknaði ör sem benti á tölustafi sem táknuðu þyngd hans.

Hrönn Bergþórs­dótt­ir, skóla­stjóri Víðistaðaskóla, seg­ir að brugðist hafi verið við mál­inu á sín­um tíma og að af­sök­un­ar­beiðni hafi verið lögð fram. Þá kveðst hún ekki hafa fengið aðrar kvart­an­ir vegna hegðunar kenn­ar­ans í sinni tíð sem skóla­stjóri.

Gunn­ar Ingi tel­ur af­sök­un­ar­beiðnina þó ekki nóg og vill að kenn­ar­an­um sé sagt upp störf­um þótt nokk­ur ár hafi liðið. Hann hafi verið lagður í einelti í skól­an­um af sam­nem­end­um sín­um og að fram­koma kenn­ar­ans hafi verið ólíðandi. Í Víðistaðaskóla hafi nem­end­ur fengið þau skila­boð að hafa ætti sam­band við kenn­ara ef eitt­hvað bjátaði á. Hann hefði ekki treyst sér til þess eft­ir þetta at­vik.

Á betri stað í dag

Gunn­ar Ingi, sem nú er 19 ára gam­all og legg­ur stund á nám í raf­virkj­un í Tækn­skól­an­um, seg­ir eineltið sem hann hafi orðið fyr­ir í grunn­skóla enn hafa mik­il áhrif á sig. 

Í dag kveðst hann vera á mun betri stað og stund­ar m.a. kraft­lyft­ing­ar en er þó enn óör­ugg­ur með sjálf­an sig og vill ein­göngu ganga um í hettupeys­um.

Að sögn Gunn­ars Inga hef­ur hann alltaf átt í erfiðleik­um með að tjá sig um eineltið sem hann varð fyr­ir í Víðistaðaskóla en eft­ir að hann byrjaði á sam­fé­lags­miðlin­um TikT­ok, hef­ur hann átt auðveld­ara með það.

Fyr­ir fjór­um dög­um birti hann svo mynd­skeið þar sem hann lýs­ir at­vik­inu þar sem hann var niður­lægður í stærðfræðitíma og birti m.a. skjá­skot þar sem kenn­ar­inn sést standa við hlið töfl­unn­ar þar sem um­rædd skila­boð komu fram.

Þyngd­in notuð sem stærðfræðidæmi

Stærðfræðitím­inn sem at­vikið átti sér stað í, byrjaði með þeim hætti að kenn­ar­inn bað Gunn­ar Inga um að gefa upp þyngd sína en töl­una átti að nota í stærðfræðidæmi. Gunn­ar veitti upp­lýs­ing­arn­ar, enda vildi hann ekki líta út fyr­ir að vera skræfa fyr­ir fram­an bekkj­ar­fé­lag­ana, að eig­in sögn. Kenn­ar­inn skrifaði þá nafn Gunn­ars og þyngd­ina við hliðina á. Þegar Gunn­ar fór svo fram á að þetta yrði strokað út, enda dæmið leyst, þá brást kenn­ar­inn við með því að skrifa „Fat boy!“ und­ir nafnið og svo ör sem benti á tölustaf­ina er táknuðu þyngd­ina.

Eft­ir tím­ann talaði kenn­ar­inn við Gunn­ar og bað hann af­sök­un­ar og taldi sig hafa gert þetta í góðlát­legu gríni, að sögn Gunn­ars.

Fundað með skóla­stjóra

Gunn­ar Ingi átti erfitt með að tala um at­vikið við for­eldra sína þegar það kom upp, þar sem móðir hans hafði greinst með krabba­mein og vildi hann ekki valda henni meiri streitu.

Eft­ir að hafa rætt við bróður sinn töldu þeir þó skyn­sam­legt að upp­lýsa móður þeirra um hvað hafði gerst. Hún fór síðar á fund með skóla­stjóra og rætt var við stærðfræðikenn­ar­ann.

Gunn­ar er þó enn ósátt­ur og vill að kenn­ar­an­um verði sagt upp.

Í sam­tali við mbl.is sagði Hrönn Bergþórs­dótt­ir, skóla­stjóri Víðistaðaskóla, að málið væri leyst. Skóla­stjórn­end­ur hefðu brugðist við á sín­um tíma og að beðið hefði verið af­sök­un­ar. Þá hefði verið um eins­dæmi að ræða en aldrei áður hef­ur kvört­un borist vegna kenn­ar­ans.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert