„Í raun er mjög ólíklegt að þetta hlýja loft færi í norðvestur frá Bretlandi til okkar. Yfirleitt þokast þetta frekar í austur,“ segir Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Íbúar í Vestur-Evrópu hafa fengið að finna fyrir hitabylgjunni sem geisar þar og hvert hitametið á fætur öðru er slegið. Á Íslandi er ekki sömu sögu að segja en meðalhiti í júní var undir meðallagi í Reykjavík.
„Þetta hlýja loft barst fyrst frá Sahara-eyðimörkinni yfir Íberíuskagann og svo yfir Frakkland og inn á Bretland. Svo þokast það austur. Hæðin sem er búin að vera yfir Vestur-Evrópu veldur því að þær lægðir sem hafa verið að berast færast norður eftir til okkar,“ segir Björn.
„Líklegt er að hitamet falli í Danmörku í dag. Síðan berst þetta áfram í austur. Líka verður hlýtt í Þýskalandi og í Póllandi. Á föstudaginn verður mjög hlýtt í Ungverjalandi og mögulegt að hitamet falli þar.“
„Vindur blæs réttsælis í kringum hæð á norðurhvelinu en rangsælis í kringum lægðina. Til þess að hlýtt loft berist frá Evrópu þarf að vera lægð hérna sunnan við land. Það var nú einhver von um það að það kæmi hlýtt loft vestan að, en það er ekkert víst,“ segir Björn.
Hann segir ástæðu þess að veður sé svona misskipt hér á landi vera vegna hæðar hálendisins. Áveðurs (þar sem vindur stendur frá hafi) er svalara og úrkomusamara en hlémegin er þurrt og jafnvel sól og hlýrra.
„Hlýjast var hérna árið 1939, þá fór í 30,5 stig á Teigarhorni á Austfjörðum og var mjög hlýtt víða um land,“ segir Björn en hiti næstu daga verður um 10 til 16 stig.