Besta veðrið í skjóli á Suðurlandi

Tjaldað á Þingvöllum. Mynd úr safni.
Tjaldað á Þingvöllum. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í samtali við mbl.is að besta veðrið um helgina muni verða á Suðurlandi, en þá í skjóli frá vindinum.

Hann segir þá að hitastigið á Norðurlandi eigi á sumum stöðum eftir að vera talsvert undir tíu gráðum.

Spurður hvar veðrið verði best um helgina fyrir Íslendinga í ferðahug er Einar fljótur að nefna Suðurlandið.

Fimmtán stig eru fimmtán stig

„Þó að loftið sé svalt þá verður veðrið ágætt á Suðurlandi. Sérstaklega á undirlendi Suðurlands og austur undir Skaftafelli og jafnvel enn lengra austur.“

Hann segir þá veðrið í Vestmannaeyjum verða fínt, fyrir utan smá blástur. „Það er þó skjól fyrir vindinum víða undir fjöllunum á Suðurlandi,“ segir Einar og nefnir að sólin muni í það minnsta skína og fólk geti búist við ágætu veðri þar sem það fær skjól frá vindinum.

„Þetta gæti farið í fimmtán stigin sem er ekkert endilega eitthvað hátt, en fimmtán stig eru allavega fimmtán stig.“

Búist er við ágætu veðri á Suðurlandi um helgina.
Búist er við ágætu veðri á Suðurlandi um helgina. mbl.is/Sigurður Bogi

Lítil von fyrir Norðurland

Þá segir Einar litla von vera til staðar fyrir betra veður um helgina á Norðurlandi.

„Þegar við tölum um vonarglætu þá gæti sést eitthvað til sólar inn til landsins en það verður meira eða minna þungbúið og úrkoma og þá sérstaklega úti við sjóinn og býsna kalt.“

Bendir hann á að það hafi verið í kringum sjö gráður víðs vegar um Norðurland í morgun og að það megi búast við enn kaldara lofti á sumum stöðum yfir helgina.

Ekki öll von úti fyrir sumarið

Hann segir vonarglætu leynast fyrir næstu helgi og að þá gæti blíðviðri glatt Íslendinga.

„Næstu helgi gæti loksins borist til okkar mildara loft úr suðvestri og þá ættu að vera einhverjir góðir dagar og þá sérstaklega á Norðurlandi og Austurlandi.“ 

Hann segir að þótt að veðrið geti orðið gott á þeim slóðum muni líklegast rigna á Suðvesturlandi.

Spurður hvort þetta gæti verið merki um hlýindi út ágúst segir Einar það ekki endilega þurfa að vera. „Þetta gæti verið einhver ein gusa sem fer yfir hjá okkur á tveimur til þremur dögum og svo kólni aftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka