„Ég held að það hafi verið, svona eins og ég segi stundum, uppsöfnuð þjóðhátíðarþörf og við fundum hvað við höfðum saknað hátíðarinnar mikið,“ segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Íris segir hátíðina hafa verið frábæra og að stemningin í dalnum hafi endurspeglað það að nú væri loksins verið að halda Þjóðhátíð eftir hlé síðustu tvö árin.
„Þjóðhátíð er öðruvísi hátíð en venjuleg útihátíð, hún er einstök í okkar huga og ég held að Vestmanneyingar hafi verið alveg rosalega glaðir að hún væri haldin á ný og ekki síður gestirnir sem komu,“ segir hún.
Íris segir veðrið hafa verið frábært í Eyjum um helgina „og þegar veðrið er gott og gleðin er mikil þá verður þetta oft ljúfara allt saman og vonandi fer fólk heim með fallegar og góðar minningar. Ég held að það sé takmarkmið hjá okkur öllum“.
Hún bætir þó við að það þurfi mikið að ganga á svo það sé erfitt að vera í dalnum. Það sé þó geggjað að vera í dalnum í veðri líkt og því sem var um helgina.
Íris segir brekkusönginn, sem er fastur liður á sunnudagskvöldi á Þjóðhátíð, vera þess eðlis að það sé alltaf ólýsanleg tilfinning að sitja í brekkunni og vera partur af 16.000 manna kór.
„Fyrir þá sem hafa ekki upplifað þetta, þeir skilja ekki alveg tilfinninguna, en þetta er svona gæsahúðarmóment að sitja með fólkinu sínu, börnunum og vinunum.“
„Þetta er toppurinn á Þjóðhátíð,” bætir hún við.
Spurð hvað tekur við í dag segir Íris að nú þurfi að pakka niður hvítu tjöldunum og græja og gera. Svo þurfi að láta sig hlakka til næsta árs og byrja að telja niður.