Sú gula lætur sjá sig í nótt

Gul viðvörun tekur gildi á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra …
Gul viðvörun tekur gildi á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra á þriðja og fjórða tímanum í nótt. mbl.is/​Hari

Gul viðvörun tekur gildi í nótt á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra og á Ströndum vegna mikillar rigningar. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Viðvörunin tekur gildi á Norðurlandi eystra á þriðja tímanum í nótt og gildir til tíu annað kvöld. Þá er varar Veðurstofan við talsverðri eða mikilli rigningu á vefsíðu Veðurstofunnar. Veðurfræðingar hennar gera ráð fyrir miklum vexti í ám og lækjum og varar Veðurstofan við því að vatnsföll geti farið staðbundið yfir bakka sína. Að auki er varað við grjóthruni og skriðuföllum.

Viðvörunin tekur gildi klukkan fjögur í nótt á Norðurlandi vestra og Ströndum og mun gilda til klukkan níu annað kvöld. Varað er við samskonar veðri á svæðinu og á Norðurlandi eystra.

Þá mun rigna mikið, einkum vestantil á svæðinu og á utanverðum Tröllaskaga. Líkt og á Norðurlandi eystra er varað við vatnavöxtum, grjóthruni og skriðuföllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert