Í Mosfellsbæ, neðan Úlfarsfells, er umfangsmikið óbyggt land sem tilheyrir Blikastöðum. Þarna var blómlegur búskapur fyrr á árum en hann lagðist af á síðustu öld. Tími er til kominn að hefja uppbyggingu á þessu landi, sem er á besta stað á höfuðborgarsvæðinu, á mótum Mosfellsbæjar og Reykjavíkur, austan Úlfarsár. Þarna munu í framtíðinni rísa bæði íbúðar- og atvinnuhús, á stærsta óbyggða landsvæði höfuðborgarsvæðisins.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.
Mosfellsbær og Blikastaðaland ehf., félag í eigu Arion banka hf. og í stýringu Stefnis hf., undirrituðu í maí sl. samstarfssamning um uppbyggingu byggðar í landi Blikastaða. Hverfið verður hannað frá grunni. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að fjöldi íbúða verði 3.500 til 3.700 talsins, blanda fjölbýlis og sérbýlis, auk 150 íbúða fyrir 55 ára og eldri, skóla, íþróttaaðstöðu og atvinnuhúsnæðis.
Undirbúningur að uppbyggingu atvinnukjarna í landi fasteignafélagsins Reita á Blikastöðum er lengra á veg kominn. Reitir og Mosfellsbær undirrituðu í maí sl. samkomulag um uppbyggingu í landi Reita á Blikastöðum, á svæði við Vesturlandsveg milli Úlfarsfells og Korpu. Atvinnusvæði Reita er sunnan við fyrirhugaða nýja íbúðabyggð á svæðinu.
Atvinnukjarninn verður skipulagður fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi eins og skrifstofur, verslun og þjónustustarfsemi. Skipulag atvinnukjarnans gerir ráð fyrir 90 þúsund fermetrum af atvinnuhúsnæði í um 30 byggingum. Þá tekur skipulagið mið af fyrirhugaðri borgarlínu í gegnum svæðið og hverfið verður umhverfisvottað á grunni krafna BREEAM Communities, sem felur í sér að hugað verður mjög vel að umhverfisþáttum og sjálfbærni hverfisins.
Samkomulagið gerir ráð fyrir að gatnaframkvæmdir geti hafist vorið 2023 og að byggingarframkvæmdir fyrsta áfanga hefjist strax í kjölfarið.
Meira um uppbygginguna í Morgunblaðinu í dag.