Karlotta Líf Sumarliðadóttir
„Í morgun var hraunið ekki búið að hækka við jaðarinn, en ef það heldur áfram eins og það hefur gert þá fer það að lokum þarna yfir, en nú er það búið að breyta sér þannig að það er að fara annað í dalina,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is.
Magnús segir erfitt að setja fram tímasetningar um hvenær hraunið úr eldgosinu geti komist að Suðurstrandarvegi. Um fjórir kílómetrar eru frá skarðinu í Eystri-Meradölum og að veginum.
„Hægt er að setja upp sviðsmyndir og það er eðlilegt að skoða þær til þess að vera við því búinn en það er ekki þar með sagt að það raungerist varðandi tíma.
Það hefur verið nefnt að það gætu þess vegna verið tvær vikur þar til hraun berist að Suðurstrandarvegi, þá er það versta sviðsmyndin.“
„Eins og þessi gos hafa þróast, síðasta gos og þetta, þá er líklegra að það sé lengri tími heldur en tvær vikur, en það er ekki hægt að fullyrða neitt,“ segir Magnús og bætir við að það sé til skoðunar að fljúga yfir gossvæðið í dag, en það sé þó ekki komið á hreint.
„Þá væri hraunið kortlagt úr lofti og þá er hægt að reikna breytingarnar og hversu mikið hefur verið að koma síðustu vikuna. Það hjálpar svo til við að meta stöðuna og hver þróunin líklega verður og hversu hröð hún er.“