„Það kemur nokkuð á óvart hversu hörundsárir fulltrúar rússneskra stjórnvalda eru gagnvart þessari myndbirtingu,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra um kröfur rússneska sendiráðsins gagnvart ritstjórn Fréttablaðsins vegna myndbirtingar af rússneska fánanum.
Rússneska sendiráðið í Reykjavík gaf frá sér yfirlýsingu á miðvikudag þar sem Fréttablaðið var krafið um afsökunarbeiðni, eftir að mynd af fót stígandi á rússneska fánann birtist í blaðinu.
„Vil hvetja til þess að komið sé fram af virðingu við þjóðfána en tek fram að ég tel að meiri vanvirðing við rússneska fánann felist í þeim hryllilegu og ómanneskjulegu glæpum sem framdir eru vísvitandi af stjórnvöldum Rússlands um þessar mundir í nafni þjóðarinnar og undir þessum sama fána,“ skrifar Þórdís á Facebook.
Netárás, sem gerð var á vef blaðsins í gær, hefur verið kærð til lögreglu. Að sögn Fréttablaðsins er rannsókn á árásinni þegar hafin.