Faðir æfur yfir innheimtuaðgerðum

Föður útskriftarnema úr Menntaskólanum í Reykjavík er verulega uppsigað við …
Föður útskriftarnema úr Menntaskólanum í Reykjavík er verulega uppsigað við innheimtu sem dóttir hans sætir nú. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er bara ólíðandi með öllu. Þessi ferðaskrifstofa, Tripical, skipuleggur ferðina með öllu, fullt verð er greitt löngu fyrir brottför og svo löngu eftir að ferðinni er lokið kemur bakreikningur um svokallað eldsneytisgjald og hann er kominn í innheimtu.“

Þetta segir óhress fjölskyldufaðir á fimmtugsaldri í samtali við mbl.is um það sem hann telur alvarlega aðför í garð dóttur sinnar, 18 ára nýstúdents frá Menntaskólanum í Reykjavík sem hélt í útskriftarferð til Krítar í vor en sætir nú lögfræðiinnheimtu vegna téðs eldsneytisgjald. Faðirinn kaus að ræða nafnlaust við mbl.is.

„Þetta eru 15.000 krónur og nemendurnir mótmæla þessu,“ heldur hann áfram. „Neytendasamtökin fjölluðu um málið fyrr í sumar og komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé ólöglegt. Þar með töldum við fjölskyldan að þessu máli væri lokið en svo gerist það núna þriðja þessa mánaðar að þessum ungmennum er send krafa sem Landsbankinn gefur út. Þar er tilkynnt um greiðslu í vanskilum, dráttarvexti og annan kostnað og gengið mjög harkalega fram við að innheimta kröfuna,“ segir faðirinn enn fremur.

Ekkert til saka unnið

Telur hann það geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir tæplega tvítugt fólk að hafna á vanskilaskrá. „Þetta fólk hefur ekkert til saka unnið en stendur nú frammi fyrir því að lenda á vanskilaskrá fyrir ólögmæta innheimtu. Ég mun ekki sætta mig við þetta. Ég mun, ásamt vonandi fleiri foreldrum nemenda sem fóru þessa för, leita réttar okkar,“ segir faðirinn.

Hann segir það fáránlegt að fá innheimtukröfu senda heim vegna málsins. „Þarna er greinilega gert út á það að kökkunum þyki þetta það lág upphæð að þeir nenni ekki að rífast og mér finnst þetta býsna harkalegt af ferðaskrifstofu sem verið hefur að störfum síðan 2017,“ lýkur hann máli sínu.

„Þetta gjald er ólöglegt, kærunefnd vöru- og þjónustukaupa tók þetta mál fyrir og úrskurðaði svo,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is. „Þetta var bara núna fyrr í sumar. Þetta er mjög einfalt, til þess að mega hækka fargjöld eftir á verður að vera ákvæði um það í samningum og það þarf að vera mjög skýrt og þar þarf að vera lækkunarákvæði líka, ekki bara hækkunarákvæði ef eitthvað hækkar upp úr öllu valdi, eins þarf að gera grein fyrir að verð gæti lækkað, sé það ekki gert fyrir fram er þetta bara ekki löglegt,“ segir Breki.

Mál leysist oftast

Kveður hann Neytendasamtökin hafa búist við þessari niðurstöðu. En hvað á tæplega tvítugt fólk að gera þegar því berst slíkur bakreikningur heim? „Þau eiga í fyrsta lagi að mótmæla og í öðru lagi að hafa samband við Neytendasamtökin. Þegar fólk leitar til okkar skoðum við alltaf allar hliðar málsins, við tölum við kvartanda og það fyrirtæki sem kvartað er undan,“ útskýrir Breki.

Segir hann samtökin þar með komast í aðstöðu til að meta hvert tilfelli og komast í þá aðstöðu sem nauðsynleg er. „Oft er auðvitað ágreiningur og þá fara okkar sérfræðingar yfir málið, benda fólki á réttindi og stundum skyldur líka. Eins getum við bent fyrirtækjum á einhvern misskilning. Flest fyrirtæki vilja gera vel og í 95 prósentum tilvika leysast mál. Tripical-málið fór þó fyrir þessa nefnd og þaðan kom þessi úrskurður,“ segir Breki Karlsson.

„Það er verið að endurgreiða þeim sem hafa óskað eftir endurgreiðslu og það eru engar kröfur í gangi,“ segir Elísabet Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri Tripical, í samtali við mbl.is. Gestkvæmt var hjá Elísabetu sem hafði ekki tíma til að ræða málið ítarlega nú undir kvöld.

Fá ekki krónu til baka

„En ég vil benda á að það er bara verið að setja út á að við höfum ekki hækkað eða lækkað í skilmálum okkar, ekki hvort þetta sé löglegt eða ólöglegt,“ segir framkvæmdastjórinn og bendir mbl.is á úrskurð Neytendastofu sem viðlagður er hér að neðan.

„Ég vissi ekkert af þessum kröfubréfum, þau koma ekki frá okkur, þetta er eitthvað sem fer bara sjálfkrafa út úr kerfinu og okkur þykir það verulega leitt,“ heldur framkvæmdastjórinn áfram. Segir hún Tripical hafa farið gegnum dimman dal, einkum í heimsfaraldrinum, ferðaskrifstofur þurfi jafnan að endurgreiða allt komi til þess að viðskiptavinir séu beittir einhvers konar órétti. „Og við fáum ekki krónu til baka get ég sagt þér. Núna er verið að vinna í þessu máli og það sem skal leiðrétt verður leiðrétt,“ segir Elísabet.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert