„Konur eru bara á leiðinni aftur inn á heimilið í landinu, að hugsa um börnin okkar, af því að við erum ekki með dagvistun.“
Þetta segir Kristín Tómasdóttir, fjögurra barna móðir og fjölskyldumeðferðarfræðingur, sem stóð fyrir mótmælum í Ráðhúsi Reykjavíkur vegna leikskólavandans síðasta fimmtudag.
Hún telur að um mikilvægt jafnréttismál sé að ræða og segir lítið um svör frá borgarstjórn. Boðað hefur verið til annarra mótmæla á fimmtudag í þessari viku.
Ráðhús Reykjavíkur mun þann dag taka við nýju hlutverki.
Hópur foreldra barna sem var lofað leikskólaplássi í haust ætlar að mæta með börnin sín í Ráðhúsið og setja upp hústökuleikskóla. Tilgangurinn er að mótmæla leikskólavandanum en einnig að sýna borgarstjórn hversu auðvelt það sé að finna lausnir á vandanum ef vilji er fyrir hendi.
„Við ætlum að sýna í verki að ef vilji er fyrir hendi þá er ekkert mál að finna lausnir að dagvistun með stuttum fyrirvara. Við erum auðvitað að pressa á að borgarráð og leikskóla- og frístundaráð grípi til aðgerða núna í ágúst þannig að við fáum pláss í september,“ segir Kristín í samtali við mbl.is.
„Það var ekki hlustað á okkur síðasta fimmtudag, þau ætluðu ekki að ræða neinar lausnir eða tillögur. Við erum að vonast til þess að meiri sýnileiki, meiri þrýstingur og tillögur að breytingum muni ýta eitthvað við borgaryfirvöldum.“
Kristín segir borgaryfirvöld ekki veita svör um fjölda þeirra plássa sem vanti né á hverju málið strandi. Sem dæmi nefnir hún að eftir eigi að klára lóð fyrir Ævintýraborg, sem er nafn borgarinnar fyrir færanlega leikskóla í gámum, við Nauthólsveg.
Eins og Morgunblaðið greindi frá í dag þá átti leikskólinn að opna í desember í fyrra. Nú er gert ráð fyrir opnun í október þessa árs.
„Það er enginn að vinna í þessari lóð. Við hefðum viljað að þessi þrýstingur sem að við sýndum síðasta fimmtudag hefði skilað því að það væru 100 manns að vinna að því að klára þessa lóð. Það eru þannig aðgerðir sem við erum að kalla eftir,“ segir Kristín.
Eins og Morgunblaðið greindi frá mun skóla- og frístundaráð Reykjavíkur koma fyrr saman eftir að Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kallaði eftir því. Ráðið átti að koma saman 22. ágúst en mun halda aukafund núna á miðvikudaginn.
Kristín fagnar því að ráðið fundi fyrr en telur að formaður ráðsins, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar, hefði átt að boða til hans fyrr.
„Mér finnst algjört ábyrgðarleysi að formaður ráðsins hafi ekki verið löngu búinn að boða til fundar. Þetta er ráðið sem fer með þessi mál og þau láta 100 manns mæta á mótmæli í stað þess að boða til fundar og finna lausnir. Þetta er ótrúlegt.“
Kristín telur leikskólavandann vera mikið jafnréttismál. Sjálf segist hún vera á þrotum og sjá ekki annað fyrir sér en að hætta að vinna.
„Ég er með 17 mánaða, að verða 18 mánaða, barn, og fæ ekki pláss fyrr en í byrjun nóvember. Við erum búin að vera útsjónarsöm í 18 mánuði. Nú er allt á þrotum. Ég hef engin úrræði önnur en að hætta að vinna,“ segir Kristín og bætir við:
„Hvernig er þetta til dæmis fyrir einstæðar mæður eða fólk sem hefur ekki stuðningsnet? Reykjavíkurborg er að koma einstæðum mæðrum á götuna, þau eru að koma fólki í algjöran fjárhagsvanda og stuðla að því að börn alist upp við fátækt nema þau grípi til einhverra aðgerða núna.“