Bið eftir leikskólavist fyrir börn sem eru 12 mánaða og eldri kostar hvert heimili að meðaltali 3,9 milljónir króna í töpuðum launatekjum. Kemur þetta fram í samantekt Viðskiptaráðs Íslands.
Þann 3. mars síðastliðinn samþykkti borgarráð að tryggja öllum 12 mánaða börnum í Reykjavík fyrir þann 1. september en fyrirheitin munu ekki ganga eftir.
Hópur foreldra efndi til mótmæla í Ráðhúsinu á fimmtudaginn síðastliðinn vegna þessa.
Þar sem börn fá að jafnaði leikskólapláss við 19 mánaða aldur í Reykjavík er fórnarkostnaðurinn að meðaltali laun í sjö mánuði hjá öðru foreldri, samkvæmt samantekt Viðskiptaráðs.
Meðallaun launþega á aldursbilinu 20 – 34 ára á landinu öllu voru kr. 562.321,- á mánuði á fyrstu sex mánuðum þessa árs og reiknar Viðskiptaráð út upphæðina út frá þeim forsendum.
„Ef gert er ráð fyrir að bið eftir leikskóladvöl geri það að verkum að annað foreldrið sé utan vinnumarkaðar nemur fjárhagslegur fórnarkostnaður þessari upphæð fyrir hvern mánuð þar til barn fær leikskólapláss.“
„Fyrir allan hópinn tapast því samtals um 376 m. kr. í laun á mánuði eða 4,5 ma. kr. yfir tólf mánaða tímabil. Til samanburðar nemur þessi fórnarkostnaður fjórðungi af heildarkostnaði við rekstur leikskóla í Reykjavík á ári,“ segir í samantektinni en þar er ekki gert ráð fyrir atvinnuleysisbótum úr ríkissjóði eða öðrum fjárhagsstuðningi.
„Ef litið er á fjölda vinnudaga vinna Íslendingar á aldursbilinu 25 til 54 ára (gögn fyrir aldursbilið 20 til 34 ára eingöngu eru ekki tiltæk) að meðaltali 37,7 klst. á viku eða 150,8 klst. á mánuði. Miðað við 8 klst. vinnudag tapast því 18,9 vinnudagar á mann á mánuði eða 226,2 vinnudagar yfir árið. Ef litið er á hópinn í heild tapast 12.611 vinnudagar á mánuði eða 151.328 vinnudagar á ári,“ segir í samantektinni.
Biðin kosti því 3,9 millónir á hvert barn, ef tlitið er til meðalinntökualdurs barna á leikskóla í Reykjavík, sem eru 19 mánuðir, ef miðað er við að barnið hefði fengið leikskólapláss við 12 mánaða aldur.