Byggðarráð Borgarbyggðar segir að lega sveitarfélagsins kalli á að landssvæði þar, til dæmis Mýrar, verði tekin til „ítarlegrar greiningar“ ef stjórnvöld ákveða að ráðast í umfangsmikla fjárfestingu í flugvelli til vara við núverandi millilandaflugvelli eða til að létta af öðrum flugvöllum á suðvesturhorninu.
Þetta kemur fram í fundargerð, en ráðið fundaði í morgun.
Í byrjun mánaðarins sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins sem situr í umhverfis- og samgöngunefnd, við Fréttablaðið að hún vilji láta skoða möguleikann á Mýrum sem flugvallarstæði í ljósi jarðhræringanna á Reykjanesi.
Í síðustu viku samþykkti byggðaráð Skagafjarðar jafnframt bókun um að Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók sé augljós kostur sem nýr varaflugvöllur fyrir millilandaflug.
Í bókun byggðarráðs Borgarbyggðar er bent á að sveitarfélagið sé steinsnar frá höfuðborgarsvæðinu en liggi sömuleiðis á krossgötum milli landshluta. Samgöngur innan sveitarfélagsins og til höfuðborgarsvæðisins séu nær undantekningarlaust greiðar.
„Fyrirhugaðar þjóðhagslega hagkvæmar samgöngubætur á borð við Sundabraut munu stytta ferðatíma og auka öryggi enn frekar. Lega sveitarfélagsins hlýtur að kalla á að landsvæði í Borgarbyggð, t.d. Mýrar, verði tekin til ítarlegrar greiningar ef ákveðið verður að ráðast í umfangsmikla fjárfestingu í flugvelli, hvort sem hann er hugsaður til vara við núverandi millilandaflugvelli eða til að létta álagi af öðrum flugvöllum á suðvesturhorni landsins. Hér má t.d. horfa til kennslu- og æfingaflugs, einkaflugs og vöruflutninga,“ segir í bókuninni.
Þar segir einnig að byggðarráð feli sveitarstjóra að koma skoðun þess á framfæri við yfirvöld samgöngumála og leggja mat á það hvort sveitarfélagið eigi að hafa frumkvæði að frumathugun á mögulegum kostum.