„Það er rétt að Björk hvatti mig í skilaboðum til þess að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, innt eftir viðbrögðum við ummælum söngkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur.
„Þá var niðurstaða okkar stjórnvalda á Íslandi að gera það ekki, heldur leggja áherslu á markvissar aðgerðir til að ná árangri í loftslagsmálum, sem ég gerði í þessari ræðu sem ég tel að hún sé að vísa til.“
Katrín segir að stjórnvöld hafi viljað einbeita sér að því sem hægt væri að gera, enda ljóst að loftslagsváin væri nú þegar farin að valda neyð víða um heim. „Það var okkar nálgun og hún er önnur en sú sem Björk lagði til.“
Þá bendir hún á að Ísland sé framarlega á sviði loftslagsmála. „Við erum til dæmis ein af fáum þjóðum sem hefur lögfest markmið um kolefnishlutleysi.“
Á ríkisstjórnarfundi í dag var farið yfir stöðu mála í aðgerðaráætlun stjórnvalda, sem miðar að því að ná hinu lögfesta markmiði.