Íslendingar megi vera stoltir af sínu framlagi

Frá ráðstefnunni í dag. Petteri Taalas er annar frá hægri …
Frá ráðstefnunni í dag. Petteri Taalas er annar frá hægri í fremstu röð. mbl.is/Árni Sæberg

Íslendingar hafa staðið sig vel í baráttunni gegn loftlagsvánni. Þó er alltaf svigrúm til að gera betur. Jafnframt fer þeim fækkandi sem efast um trúverðugleika loftlagsvísinda.

Þetta kom fram í máli Petteri Taalas, framkvæmdastjóra Alþjóðaveðurstofnunarinnar, í samtali við mbl.is.

Taalas er á landinu vegna ráðstefnunnar Cryosph­ere 2022 sem fjallar um af­drif íss og snæv­ar í hlýn­andi lofts­lagi Jarðar. Um 330 vís­inda­menn sækja ráðstefn­una, sem er á vegum Veðurstofu Íslands. Þeir koma frá 33 lönd­um í sex heims­álf­um.

Ísland sýni gott fordæmi

Að mati Taalas hafa Íslendingar sýnt gott fordæmi um hvernig hægt sé að framleiða orku á umhverfisvænan hátt. Jafnframt hrósar hann því að hér hafi verið búið til pláss fyrir erlendar ofurtölvur sem sé því hægt að reka á umhverfisvænni orku. 

„Ofurtölvur þurfa mikla orku. Ef hægt er að nota umhverfisvæna orku þá er það frábært og það er það sem Íslendingar eru að gera núna,“ segir Taalas.

Sömuleiðis hrósar hann öflugu viðvörunarkerfi Veðurstofunnar við náttúruvám. „Það er eitthvað sem öll lönd heims ættu að koma sér upp í framtíðinni. Það hefur heppnast vel hjá ykkur.“

Spurður hvernig íslensk stjórnvöld hafi að hans mati staðið sig í sínum aðgerðum gegn loftlagsvánni, segir Taalas:

„Ég held að þið hafið unnið gott starf og ættuð vera stolt af ykkar framlagi hingað til. En auðvitað eru frekari skref sem hægt er að stíga.“

Sem dæmi nefnir hann að hér mætti setja meiri kraft í rafbílavæðingu.

Fólk finni fyrir vánni

Taalas segist hafa fundið fyrir verulegri breytingu á viðhorfi fólks til loftlagsvísinda á síðustu árum. Segir hann fleiri nú finna fyrir loftlagsvánni og trúi vísindunum því frekar.

„Vísindin eru mjög skýr og ég hef tekið eftir því að vísindaafneitun er að hverfa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert