„Ég trúi því að við getum flogið í innanlandsflugi eftir tíu ár í svona vél,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eftir að hafa tekið hring með fyrstu rafmagnsflugvélinni á Íslandi.
„Þetta er risastórt skref í orkuskiptum á Íslandi. Skref sem ég hefði trúað að kæmi fyrr í skipaferðum en flugferðum. En ég hef auðvitað verið að fylgjast með þessu undanfarin misseri og hef trú á því að flugið sé á þröskuldinum að geta farið í full orkuskipti, sem er auðvitað alveg stórkostlegt,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.
Það voru Matthías Sveinbjörnsson og Friðrik Pálsson sem stofnuðu Rafmagnsflug ehf. í árslok 2021 en þeir hafa unnið að því síðastliðin þrjú ár að fá fyrstu rafmagnsflugvélina til landsins.
Buðu þeir forseta Íslands og forsætisráðherra í fyrstu farþegaflugferðir vélarinnar.
Flugu hún og Matthías yfir Viðey, Engey, Garðabæinn og víðar og þurfti vélin að bíða eftir að geta lent vegna þyrluflugs á svæðinu.
Katrín segir afar mikilvægt að einkaaðilar og ríkisaðilar taki höndum saman til þess að takast á við verkefni sem þessi.
„Það er frábært hvernig margir aðilar eru að taka sig saman og láta þetta gerast. Það er nákvæmlega það sem þarf að gera í öllum geirum samfélagins. Þetta vinnulag finnst mér alveg til fyrirmyndar,“ segir Katrín.