Gagnrýna „ofsafengin viðbrögð“ lögregluyfirvalda

Ungir jafnaðarmenn segja aðgerðir lögreglu grafa undan tjáningarfrelsi.
Ungir jafnaðarmenn segja aðgerðir lögreglu grafa undan tjáningarfrelsi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðstjórn Ungra jafnaðarmanna gagnrýnir harðlega „ofsafengin viðbrögð lögregluyfirvalda“ við friðsamlegum mómælum Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem fram fóru við rússneska sendiráðið í gær.

Ungir sjálfstæðismenn hugðust mála úkraínska fánann á stétt fyrir framan sendiráðið en voru stöðvaðir af fjölmennu liði lögreglu- og sérsveitarmanna. 

Ungir jafnaðarmenn telja vegið að rétti fólks til þess að mótmæla.

„Aðför að tjáningarfrelsinu“

„Það er með öllu ólíðandi að vopnuð sérsveit sé kölluð út til að bregðast við slíkum mótmælum. Þessar aðgerðir eru aðför að tjáningarfrelsinu. Þær ýta undir vantraust til lögreglu og fæla fólk frá því að láta í sér heyra,“ segir í yfirlýsingunni.

Fleiri tilvik hafi átt sér stað á síðastliðnum árum þar sem lögregla hefur haft afskipti af friðsamlegum mótmælum og slíkt sé áhyggjuefni í lýðræðisríki.

„Dæmi eru um að ungt jaðarsett fólk hafi verið handtekið fyrir það eitt að ætla sér að mótmæla friðsamlega. Miðstjórn Ungra jafnaðarmanna telur alvarlegt að lögregla beiti valdi sínu til þess að stöðva friðsamleg mótmæli og bendir á stjórnarskrárbundinn rétt einstaklinga til að safnast saman og mótmæla,“ segir að lokum.

SUS heldur í dag málþing um innrásina í Úkraínu, þar sem hálft ár er liðið frá henni, en auk þess fagna Úkraínumenn þjóðhátíðardegi sínum í dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka