Hagsmunasamtök heimilanna segja að vaxtahækkun Seðlabanka Íslands í gær sé „enn einn rýtingur í bakið á heimilum landsins“. Aftur séu það þau sem minnst hafa og mest skulda sem verst verði úti.
„Vaxtahækkanir eru ekki lögmál og alls í ekki í þeim mæli sem Seðlabanki Íslands er að leyfa sér að beita þeim á þessum tímum. Heimili landsins munu langflest standa undir hækkandi vöruverði vegna verðbólgunnar, en þegar „lækningin“ margfaldar byrðar hennar, er hætt við að eitthvað láti undan. Það er staðreynd að vextir á Íslandi hafa hækkað um 340% á einu ári og 633% frá því þeir voru lægstir í maí í 2021,“ segir í tilkynningu samtakanna.
Þar segir að á hinum Norðurlöndunum sé allt gert til að koma í veg fyrir að heimilin finni fyrir verðbólgunni í vaxandi húsnæðiskostnaði. Bent er á að í Danmörku séu stýrivextirnir 0,1%, í Noregi 1,75%, í Svíþjóð 0,75% og í Finnlandi 0,5%. Á Íslandi eru þeir 5,5%.
„Hagsmunasamtök heimilanna vilja í allri vinsemd benda ríkisstjórn og Seðlabanka Íslands á að aðgerðir þeirra gegn verðbólgunni eru mikið verri en verðbólgan sjálf. Við hvetjum þau til að taka frekar upp sértækar aðgerðir gagnvart þeim sem eru að kaupa sér fasteignir því auknar álögur á þau sem eru ekki í neinum slíkum hugleiðingum hafa engin áhrif á fasteignamarkaðinn. Í stuttu máli, hættið að hækka vexti og auka álögur á heimilin, dragið til baka þær hækkanir sem þegar eru orðnar, leyfið heimilunum að „sigla í gegnum verðbólguna“ án þess að gera bara illt verra og þá munu kjaraviðræður haustsins vafalítið ganga betur fyrir sig,“ segir í tilkynningunni.
Samtökin lýsa yfir eindregnum stuðningi við stéttarfélögin sem munu leiða kjaraviðræður haustsins en senda þeim fjölskyldum sem óttast framtíðina hlýjar kveðjur. „Hugur okkar er ekki síst hjá þeim sem eru föst á leigumarkaði, því þeirra staða er fyrir löngu orðin verulega slæm en því miður er fátt til ráða.“