Sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fara til skiptist með almennt eftirlit í kringum rússneska sendiráðið á Íslandi.
mbl.is greindi frá því á þriðjudagskvöld að nokkrir ungliðar í Sjálfstæðisflokknum hefðu verið gripnir glóðvolgir við að reyna að mála fánaliti Úkraínu fyrir utan sendiráð Rússlands við Garðastræti í Reykjavík.
Athygli vakti að sérsveit lögreglunnar tókst að stöðva gjörninginn snögglega, sem var í tilefni þjóðhátíðardags Úkraínu og þess að sex mánuðir voru liðnir frá innrás Rússlands í Úkraínu.
Gunnar Hörður Gunnarsson, upplýsingafulltrúi hjá ríkislögreglustjóra, segir í samtali við mbl.is að lögreglan og sérsveitin annist sérstakt eftirlit með sendiráðinu vegna tíðra mótmæla við húsakynni þess.
„Viðveran er hluti af skuldbindingum Íslands sem gistiríki sendiráða. Ísland hefur ríkar skyldur gagnvart öryggi sendiráða hér og því er sinn með samstarfi lögreglu og sérsveitar,“ segir Gunnar Hörður.
„Þó að viðbúnaðurinn krefjist ekki endilega viðveru sérsveitar, þá eru sérsveitarmenn lögreglumenn líka og sinna einnig almennri löggæslu, sem þetta og var,“ bætir hann við.