„Algjört smágos“ ef það hefst ekki að nýju

Frá eldgosinu í Meradölum.
Frá eldgosinu í Meradölum. mbl.is/Hákon

Ef eldgosið í Meradölum hefst ekki að nýju er ljóst að um algjört smágos var að ræða. Þetta kemur fram í facebookfærslu eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands.

Vika er liðin síðan gosið lagðist í dvala.

Fram kemur að gosið hafi staðið yfir í 18 daga og hraun þess einungis þakið um 1,2 ferkílómetra. Að mestu hafi það runnið yfir hraun frá eldgosinu sem varð í fyrra. Rúmmál gossins sé talið nema 11 milljónum rúmmetra. 

„Til samanburðar þakti hraunið frá gosinu í Geldingadölum um 4,8 ferkílómeter og rúmmálið metið 150 milljón rúmmetra,“ segir í færslunni.

Þar segir einnig að þetta sé skammlífasta hraungos sem hafi orðið á Íslandi frá lokagosi Kröfluelda árið 1984.

„Skammlífari eldgos hafa þó átt sér stað á undanförnum áratugum, en þau gos hafa ýmist verið sprengigos eða blandgos (sprengigos ásamt hraunrennsli).“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert