Ríkisendurskoðun hefur ákveðið að hefja frumkvæðisúttekt á eftirliti Matvælastofnunar með velferð dýra og verður niðurstaðan birt í opinberri skýrslu til Alþingis.
Áætlun um afmörkun og framkvæmd úttektarinnar liggur ekki fyrir en slík áætlun verður endurskoðuð eftir því sem úttektinni vindur fram, að því er fram kemur í tilkynningu stofnunarinnar.
Íbúi í Borgarnesi greindi í gær frá illri meðferð á hestum sem voru til húsa í hesthúsahverfi í grennd við bæinn. Sagði hún þá vannærða og lokaða inni í hesthúsi á daginn þar sem væri afar þröngt um þá. Taldi hún að þeim væri einungis hleypt út í gerði að nóttu til.
Í samtali við mbl.is sagðist hún oft hafa haft samband við MAST vegna vanrækslu hestanna en einungis fengið þau svör að málið væri í ferli. Þá kvaðst hún hafa fengið margar ábendingar frá fólki sem einnig hefði haft samband við MAST vegna hrossanna.
Stjórn Dýraverndarsambands Íslands skoraði í dag á MAST að sinna án tafar lögbundnum skyldum sínum varðandi velferð hrossa sem eru í neyð í Borgarbyggð.