Trausti Jónsson, einn kunnasti veðurfræðingur þjóðarinnar, hefur talið svokallaða sumardaga í Reykjavík í júní, júlí og ágúst og þeir reyndust aðeins tólf.
Skilgreininguna á hvað felst í sumardögum má finna í þessari færslu hér hjá Trausta en hann minnir á að þetta sé einungis til gamans gert. Í grófum dráttum er miðað við veðurathuganir fjórum sinnum yfir daginn frá klukkan 12 til klukkan 21. Meðalhiti þarf að vera 13,1 stig eða hámarkshitinn klukkan 18 sé meiri en 15 stig.
Tólf dagar flokkast sem sumardagar í Reykjavík mánuðina þrjá þetta árið. Aðeins einn dagur flokkaðist sem sumardagur í júlí og þarf að fara aftur til ársins 1989 til að finna sambærilegar tölur. „Almannarómur hefur nokkuð kvartað undan skorti á hlýjum dögum - nokkuð til í því ef við tökum mark á talningunni,“ segir Trausti meðal annars í færslunni á bloggsíðu sinni.
Trausti skrifar í framhaldinu skemmtilega hugleiðingu þar sem hann lætur hugann reika aftur í tímann.
„Sumardagafjöldinn í ár, tólf, er svipaður og algengt var á unglingsárum ritstjóra hungurdiska og fram á fyrstu ár hans á Veðurstofunni. Honum hefur því í sumar fundist hann eiginlega „kominn heim“ - harla ánægður. Yngra fólk, sérstaklega það sem er undir fertugu og þaðan af yngra man auðvitað miklu betri sumur. Meðalfjöldi þessarar aldar er þannig 31 og meðaltal allra 74 áranna sem hér er litið til er 20. Á öldinni keppir sumrið nú við 2013 og 2018 í sumardagarýrð, enn einum degi rýrari en þessi sumur, en ekki er ólíklegt að september hali inn einhverja daga, þarf tvo til að vera ekki á botninum. Sumardagar hafa flestir orðið 11 í september, það var 1958 - ef það gerðist nú færi fjöldinn upp í 23, yfir langa meðaltalið. Einn sumardagur finnst í október, 1958 líka. “