Vilja endurskoða samninga um flóttamenn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Við erum nú að endurskoða samninga við sveitarfélög um hina svokölluðu samræmdu móttöku flóttafólks sem tekur við eftir að fólk er búið að fá vernd og ég er að vonast til þess að við getum gengið frá þeim sem allra fyrst, því þá getum við samið við fleiri sveitarfélög,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um áætlanir félagsmálaráðuneytisins til að annast þann mikla fjölda flóttafólks sem streymir til landsins um þessar mundir.

Vinnumálastofnun er með samninga við þrjú sveitarfélög; Reykjavíkurborg, Reykjanesbæ og Hafnarfjörð um að veita 390 manns þjónustu, sem bíða ákvörðunar og afgreiðslu umsóknar sinnar um vernd, en tvö þeirra hafa kvartað undan því að innviðirnir ráði ekki við frekari fjölgun flóttafólks.

Þessir samningar fluttust til Vinnumálastofnunar frá Útlendingastofnun í byrjun júlí síðastliðnum og getur fólk verið í allt að átta vikur í þjónustu hjá þeim en svo eiga sveitarfélögin að taka við.

Rósa Guðbjarts­dótt­ir, bæj­ar­stjóri í Hafnar­f­irði, sagði nýverið að innviðir þar væru sprungn­ir og að ábyrgðinni hefði verið vísað á fé­lags­mála- og vinnu­markaðsráðuneytið.

Víða skortur á húsnæði

Félagsmálaráðuneytið er með samninga við fimm sveitarfélög, þá þessi þrjú að ofantöldu auk Árborgar og Akureyri, um samræmda móttöku flóttafólks, þ.e.a.s að veita flóttafólki sem hefur þegar fengið vernd ýmsa þjónustu, þ.á.m. húsnæðis- og heilbrigðisþjónustu.

Guðmundur Ingi segir að verið sé að vinna með FRSE um að hjálpa fólki í þessum tiltekna hóp.

„Við höfum verið að vinna með Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir í að finna húsnæði til þess að búa til millibilsástand fyrir fólk sem er búið að fá vernd en á eftir að flytja í varanlega búsetu hjá sveitarfélögunum. Þetta er vegna þess að það er víða skortur á húsnæði,“ segir Guðmundur Ingi.

Þá bætir Guðmundur Ingi við að markmiðið með samræmdri móttöku sé að hjálpa flóttafólki að aðlagast íslensku samfélagi sem allra fyrst.

„Erum að ráða við þetta eins og staðan er núna“

Guðmundur Ingi segir þá mannúðaraðgerð að taka við flóttafólki frá Úkraínu vera að ganga ágætlega í samræmi við spár.

„Við erum að ráða við þetta eins og er, en þetta eru stórar áskoranir. Þegar við horfum á spárnar sem koma frá lögreglunni um hver fjöldinn verður sem kemur til landsins getum notað það í okkar áætlanagerð,“ segir Guðmundur Ingi.

Tölurnar sem hafa verið nefndar fyrir þetta ár eru á bilinu 1.500-4.000 manns. Guðmundur Ingi segir að nú þegar séu fleiri en 1.500 manns komnir hingað. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert