Tækjaáhuginn er Vali R. Jóhannssyni í blóð borinn en hann stóð varla út úr hnefa þegar hann byrjaði að taka hin ýmsu heimilistæki í sundur og setja þau saman aftur. „Mér fannst svo spennandi að sjá úr hverju tækin voru gerð. Til að byrja með var allur gangur á því hvort mér tókst að setja þau saman aftur,“ segir hann hlæjandi.
– Og hvað sögðu foreldrar þínir við því?
„Ég man svo sem ekki eftir neinum leiðindum.“
Valur fann sína köllun og hefur í meira en fjóra áratugi starfað við að gera við myndavélar, auk þess að reka myndavélaverslunina Fotoval í Skipholtinu. Hann hefur nú lokað versluninni en mun halda áfram að gera við. Reykjavík Foto á Laugaveginum tekur við vélunum til viðgerðar.
Hann hefur alla tíð verið á réttri hillu. „Í þessu starfi sameinast brennandi áhugi minn á mekaník, rafeindum og ljósmyndun. Það er alltaf jafn spennandi að fá bilaða myndavél í hendurnar.“
Hann segir meira hafa verið að gera hér áður en filmuvélar biluðu víst tíðar en þær stafrænu og flóknara að gera við þær. Á seinustu árum hefur Valur þó orðið var við áhugaverða þróun en yngra fólk er farið að koma í auknum mæli með gamlar filmuvélar sem það hefur fengið frá foreldrum sínum, ömmu eða afa.
Rætt er við Val í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.