Birtingarmynd stærra vandamáls

Enn er verið að meta umfang tjónsins og óljóst er …
Enn er verið að meta umfang tjónsins og óljóst er hversu margir hafa tilkynnt um tjón. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst mikilvægt á þessari stundu að fara yfir stöðuna til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Sú skoðun leiðir kannski í ljós hvar við erum stödd, hver aldur þessara innviða er, hvar kominn er tími á viðhald og hvort því hafi hreinlega verið sinnt,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um vatnslekann sem átti sér stað í Hvassaleiti í Reykjavík á föstudag. „Við sjáum að innviðir eru að springa og skemmast víða um borgina, þannig að þetta er ákveðin birtingarmynd stærra vandamáls.“

Hildur telur þörf á að kanna ástand á lögnum í borginni og hvar séu líkur á að þær geti farið í sundur til þess að hægt sé að fyrirbyggja að svona atvik endurtaki sig.

Jón Trausti Kárason, forstöðumaður vatnsveitna og fráveitna hjá Veitum, segir í samtali við Morgunblaðið að nýtingartími vatnslagna, á borð við þá sem rofnaði á föstudag, geti verið allt að hundrað ár. Spurningar hafa vaknað um ástand lagnarinnar en hún var tekin í notkun árið 1962.

Mögulega leyndir efnisgallar

Vatnsleki kom upp í sömu lögn fyrir fimm árum og segir Jón Trausti að við hefðbundna athugun á lagnaefninu hafi ekki séð á því.

„Við erum með fleiri kílómetra af þessum lögnum og það er ómögulegt að segja nákvæmlega hvernig staðan er á hverjum metra. Það geta verið efnisgallar sem við sjáum ekki og vitum ekki af. Án þess að við vitum á þessum tímapunkti hvað nákvæmlega gerðist þarna þá er ekkert ósennilegt að þarna hafi verið efnisgalli,“ segir Jón Trausti.

Spurður hvort lögnin hafi verið í viðhaldsflokki fyrir lekann á föstudag svarar Jón Trausti því neitandi. Lögnin verður skoðuð í dag og rannsakað hvað olli lekanum.

Fjárfestingar aldrei meiri

„Við ætlum ekki að setja á hana vatn aftur fyrr en við erum orðin örugg um að hún sé í lagi. Það eru ýmsar vangaveltur uppi hvort við getum dregið nýja, grennri lögn í þessa gömlu. En við setjum hana ekki rekstur fyrr en við erum búin að ganga úr skugga um öryggi hennar á þessum kafla.“

Jón Trausti segist aðspurður ekki vita hve margar lagnir séu í hæsta forgangsflokki en tekur fram að Veitur hafi aldrei fjárfest meira í viðhaldsverkefnum en um þessar mundir.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert