Félag atvinnurekenda (FA) mótmælir fyrirhuguðum gjaldhækkunum á áfengi og tóbaki en í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 sem kynnt var í morgun er lagt fram framangreind gjaldhækkun sem og að afsláttur á sömu vörum verði lækkaður í tollfrjálsri verslun.
Í tilkynningu á vef FA segir að með frumvarpinu sé gert ráð fyrir að almennt áfengisgjald hækki um 7,7% og að áfengisgjald í fríhafnarverslunum hækki um 150%, úr 10% af almennu áfengisgjaldi í 25%. Líkleg áhrif þessa til hækkunar á einstökum tegundum áfengra drykkja, í Vínbúðum ÁTVR og í Fríhafnarverslunum, sjást í dæmum sem FA hefur tekið saman.
Þá segir í téðri tilkynningu að kassi af vinsælu léttvíni mun þannig hækka um 600 krónur í Vínbúðinni og bjórkippa um tæplega 150 krónur, en eins lítra ginflaska um 663 krónur. Í Fríhöfninni gæti ginflaskan hækkað um 2.300 krónur og léttvínskassinn um 1.800 krónur.
Auk þess kemur fram að sú staðhæfing sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins að gjöld hafi verið óbreytt frá árinu 2019 sé alröng, en í tilviki áfengisgjaldsins hefur það verið hækkað árlega og nemur uppsöfnuð hækkun þess 16% frá 2019 til 2023, miðað við umrætt frumvarp.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir ríkisstjórnina ekki hjálpa til í baráttunni við verðbólguna þegar hún bætir í gjöld sem hækka almennt verðlag.
„Skattlagning á áfenga drykki á Íslandi er löngu komin út úr öllu korti og bitnar til dæmis hart á samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar. Við höfum oft kallað eftir rökstuðningi fyrir því að þessir skattar eigi að vera svona miklu hærri en í nágrannalöndum okkar, en komum þar ævinlega að tómum kofunum hjá stjórnmálamönnum,“ segir hann í tilkynningu FA.