Vilja afnema bann við klámi

Björn Leví Gunnarsson og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmenn Pírata.
Björn Leví Gunnarsson og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmenn Pírata. Samsett mynd

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og Björn Leví Gunnarsson, sem bæði eru þingmenn Pírata, hafa lagt fram frumvarp um afnám banns við klámi. Samkvæmt núgildandi hegningarlögum er það óheimilt og refsivert að m.a. birta klám á prenti, búa það til, flytja það inn, selja það, útbýta því og dreifa.

Segir í forsögu frumvarpsins að íslensk lög um klám hafa staðið að mestu leyti óbreytt í um 153 ár. „Á sama tíma hafa viðhorf til kynlífs gjörbreyst, öll umræða um kynlíf, kynhegðun og kynfrelsi hefur opnast upp á gátt, á sama tíma og bylting í upplýsingatækni hefur gert dreifingu mynd- og hljóðefnis einfaldari en nokkru sinni fyrr.”

Ólíkt hinum Norðurlöndunum

Þá er tekið fram að bann við klámi var afnumið í dönskum lögum árið 1969 og að ekki sé að finna bann við klámi í sænskum lögum. Í norskum lögum er klám skilgreint sem birting á kynferðislegu efni sem er misbjóðandi eða ofbeldisfullt og er birting á slíku efni refsiverð. Í Finnlandi er dreifing kláms ólögleg en eingöngu ef í efninu er ofbeldi, börn eða um dýraklám að ræða.

Segir þá að hér á landi hafi klám verið skilgreint á annan hátt en á hinum Norðurlöndunum.

„Túlkun dómstóla hér á landi hefur því verið sú að klám teljist það efni sem sýni ýmsar kynlífsathafnir, og er ekki gerð krafa um að það teljist misbjóðandi, sýni manneskjur í niðurlægjandi ljósi eða feli í sér ofbeldi.

Viðhorf samfélagsins til kynlífs breyst

Kemur fram í greinargerð frumvarpsins að bannið, sem sé úrelt, byggist á óskýrum hugmyndum ríkjandi menningar um hvers konar kynlíf þykir siðlegt eða ósiðlegt.

„Frá setningu íslenska bannákvæðisins við klámi hafa viðhorf samfélagsins til kynlífs og kynhegðunar hins vegar stórbreyst til hins betra. Almennt er það ekki talið vera í verkahring yfirvalda að ákveða hvers konar kynlíf fólk kjósi að stunda hvert með öðru, heldur snýst umræða um siðferðisleg mörk kynlífs fyrst og fremst um að til staðar sé upplýst samþykki allra sem í hlut eiga.“

Fjöldi framleiði efni fyrri OnlyFans

Þá segir að enn fremur verði að líta til þess að hér á landi starfi þónokkur fjöldi fólks við háttsemi sem í dag myndi flokkast sem refsiverð.

„Hér er einna helst um að ræða fólk sem framleiðir efni fyrir erótískar efnisveitur á borð við OnlyFans. Óháð því hvaða skoðanir fólk kann að hafa á slíkum miðlum þá er það ótækt að hér á landi skuli í landslögum vera refsingar fyrir það að miðla erótísku eða klámfengnu efni sem fólk hefur sjálft framleitt, af sjálfu sér, á internetið. Það er engin þörf á því að glæpavæða þá háttsemi,“ segir í greinargerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert