Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist „innilega ósammála“ Kristrúnu Frostadóttur, formannsframbjóðanda í flokknum, í atriðum varðandi aðild að Evrópusambandinu og nýju stjórnarskrána.
Þetta kemur fram í færslu sem Helga Vala birtir á Facebook. Helga Vala deilir með færslunni frétt um að þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata hefðu lagt fram þingsályktunartillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin, um hvort Ísland ætti að fara í viðræður um aðild að Evrópusambandinu, en bæði Helga Vala og Kristrún eru á meðal flutningsmanna tillögunnar.
„Við verðum þá bara að vera sammála um að vera innilega ósammála um þessi tvö grundvallarstefnumál Samfylkingarinnar. Stefnan er svo samin af grasrót og rædd og samþykkt á landsfundi svo við skulum sjá hvort flokksfólki hefur snúist hugur,“ skrifar Helga Vala í svari við Þórs Saari, fyrrverandi þingmanns sem furðaði sig á málinu.
Málið snýst um aðild að ESB, en Kristrún sagði á dögunum að hún vildi leggja aðildarviðræður í þjóðaratkvæðagreiðslu og taka svo stöðuna í kjölfarið. Helga Vala segir að hún geti orðað það svo að hún sé mun óþolinmóðari en Kristrún og kveðst vilja klára málið sem fyrst.
Kristrún sagði þá í viðtali í Kjarnanum á dögunum að raunveruleikinn væri sá að það væri ekki meirihluti á þingi fyrir því að samþykkja nýja stjórnarskrá og að hún vildi ekki fara í vegferð á næsta kjörtímabili sem hún sæi ekki fram á að geta skilað í höfn.