Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður stéttarfélagsins Bárunnar og annar varaforseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), ætlar, eins og staðan er núna, ekki að sækjast eftir endurkjöri í embætti varaforseta ASÍ á þingi sambandsins í október. Segist hún ekki geta unnið með því fólki sem nú er í framboði til forseta og varaforseta ASÍ.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er enn sem komið er einn í framboði til forseta ASÍ. Embætti varaforseta ASÍ eru þrjú. Hefur Ragnar Þór sagt að hann vilji að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, verði annar varaforseti sambandsins, en hún hefur ekki ákveðið hvort hún muni gefa kost á sér.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og forseti ASÍ, sækist eftir því að verða fyrsti varaforseti sambandsins og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins, sækist eftir því að verða þriðji varaforseti ASÍ.
„Ég ætla ekki að bjóða mig fram eins og staðan er í dag. Ef þetta verður ofan á þá treysti ég mér ekki til að vinna með þessu fólki,“ segir Halldóra í samtali við mbl.is.
Spurð hvort hún meti stöðuna þannig að enginn muni bjóða sig fram gegn Ragnari Þór segir Halldóra:
„Ég held að það sé ekki enn þá komið í ljós. Fólk er að velta stöðunni fyrir sér því að hún er sérstök og vinnuumhverfið er orðið mjög sérstakt.“
Halldóra var kjörin þriðji varaforseti ASÍ á miðstjórnarfundi sambandsins í nóvember í fyrra. Hún tók við sætinu af Ragnari Þór þegar hann tók við sæti annars varaforseta af Sólveigu Önnu sem sagði sig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir ASÍ samhliða afsögn sinni sem formaður Eflingar.
Segir Halldóra að þegar hún hafi verið kjörin hafi Ragnar Þór lýst því yfir á fundinum að hann myndi ekki styðja hana í neinu. Í kjölfarið hafi fulltrúar VR á fundinum ekki stutt kjör hennar.
„Þá tóku VR-ingarnir hendurnar niður. Þannig að ofbeldið er svo mikið að engin lýðræðisleg hugsun er leyfð eða að fólk fái að gera eins og það vill gera,“ segir Halldóra.