Formaður BÍ gagnrýnir Bjarna

Bjarni Benediktsson og Sigríður Dögg Auðunsdóttir.
Bjarni Benediktsson og Sigríður Dögg Auðunsdóttir. Samsett mynd

Sigríður Dögg Auðnsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ), gagnrýnir Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir Facebook-færslu sem hann birti í gær.

Bjarni gagnrýnir þar grein Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, þar sem hann rek­ur mála­ferla í um­fjöll­un Kjarn­ans og annarra fjöl­miðla um hina svo­kölluðu „Skæru­liðadeild Sam­herja“.

„Mér þykir miður að þurfa að standa í ritdeilum við formann stærsta stjórnmálaflokks landsins, en lít á það sem skyldu mína að standa vörð um rétt blaðamanna til þess að vinna vinnu sína í þágu almennings, en ekki síður að leiðrétta alvarlegar rangfærslur í fullyrðingum Bjarna,“ segir Sigríður í grein sinni sem birt er á heimasíðu BÍ.

Yfirheyrð fyrir að vinna vinnuna sína

Sigríður segir að í færslu Bjarna sé tekið fram að ályktun blaðamanna og fréttamanna verið byggð á getgátum og röngum forsendum.

„Það sem blaðamenn vissu á því stigi máls var byggt á upplýsingum frá lögreglu og staðfest í yfirheyrslum yfir fjórmenningunum, líkt og fram kemur í grein Þórðar Snæs í gær, sem og grein Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni og varaformanns Blaðamannafélags Íslands,“ segir Sigríður.

Hún segir þá báða, Þórð og Aðalstein, lýsa yfirheyrslu lögreglu og að hún hafi einungis snúist um að afla upplýsinga um heimildarmenn, umfjöllunarefni fréttanna, og fréttamat blaðamannanna og þeirra ritstjórna sem þeir starfa á.

„Með öðrum orðum: Þeir voru - þótt Bjarni neiti að trúa því - færðir til yfirheyrslu fyrir það eitt að vinna vinnuna sína. Það er einmitt kjarni þess sem Blaðamannafélagið hefur gagnrýnt,“ segir Sigríður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert