Halla Gunnarsdóttir hefur sagt starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri ASÍ og mun ekki snúa aftur að fæðingarorlofi loknu.
Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is.
„Það er ekkert leyndarmál að ég kom til starfa hjá ASÍ til að vinna með Drífu Snædal. Ég tel bæði rétt og eðlilegt að nýr forseti fái til sín framkvæmdastjóra sem hann treystir og á trúnað hjá,“ segir Halla spurð út í ástæður uppsagnarinnar.
Hún segist þó treysta sér til að vinna með hverjum sem er. „Mér finnst þetta heiðarlegra en að fara í einhverja störukeppni við nýja forystu þegar hún tekur við. Það er búið að mála upp þá mynd að Drífa Snædal hafi verið eitthvert vandamál innan Alþýðusambandsins. Ég hef starfað með henni og stutt hennar verk þannig að ef að það er upplifun þeirra sem taka munu við, að hún sé vandamál, þá er ég það líklega líka,“ segir hún.
Hún kveðst leið yfir að vera að yfirgefa sambandið, hún hafi ekki komið til að stoppa þar við í stutta stund. „Þegar ég hóf störf vorið 2020 hélt ég að ég væri að fara að taka þátt í að byggja upp enn öflugra Alþýðusamband og ég var spennt fyrir þeim breytingum sem voru að eiga sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar. Þess í stað hef ég orðið vitni af hatrömmustu valdabaráttu sem ég hef nokkru sinni séð, sem hefur dregið úr okkur þróttinn og drepið samstöðuna.“
Spurð hvernig átökin innan ASÍ hafi birst henni sem framkvæmdastjóra undanfarið segir Halla:
„Þegar spurt er um hvað átökin í ASÍ fjalla hef ég oft átt erfitt með að svara því. Þau hafa verið um völd og yfirráð, ekki um málefni, um þau er mikill samhljómur. Eftir hópuppsagnir Eflingar varð klofningurinn mjög ljós. Hluti hreyfingarinnar er tilbúinn til að standa að eða styðja hópuppsagnir, eða í það minnsta láta ógert að mótmæla þeim, eingöngu til að standa vörð um völd. Og þar er þögn formanns VR ærandi, en allt hefur þetta komið fram opinberlega.“
„Opinbera umræðan þessi átök, um ASÍ og um Drífu Snædal hefur að mínum dómi verið ósanngjörn og stundum ósönn. Það er eins og narratívan hafi verið ákveðin fyrirfram, með aðstoð fræðilegra kenninga, og svo er veruleikinn skekktur og skældur þar til hann passar inn í söguna sem er búið að ákveða. Aðeins með þannig hugarleikfimi er hægt að fá það út að Drífa Snædal sé bein framlenging af Gylfa Arnbjörnssyni eða að Drífa hafi viljað taka verkfallsrétt af fólki, sem er ekki aðeins ósatt heldur líka ærumeiðandi fyrir manneskju sem hefur helgað sig verkalýðsbaráttu.“
Halla segir þá sýn formanna stóru verkalýðsfélaganna innan sambandsins og sína á lýðræði innan þess ekki fara saman.
„Ég hef átt erfitt með þá sýn sem hefur komið fram á lýðræðið í þessari yfirtöku á ASÍ. Þar er hugmyndin sú að nái formenn aðildarfélaga saman sem hafa meirihluta félagsmanna á bak við sig, þá eigi þeir sjálfkrafa að ráða stefnunni og að forseti ASÍ sitji í þeirra umboði og eigi að hegða sér í samræmi við það. En þetta er ekki rétt. Forseti ASÍ situr í umboði þings ASÍ og á að vera forseti allra aðildarfélaganna, bæði lítilla og stórra. Forseti á að vera trúr stefnu ASÍ. Hún er ákvörðuð á þingi ASÍ og um hana á að fjalla þar og eftir atvikum í miðstjórn, ekki á einkafundum forystufólks fárra félega. Skoðun einnar manneskju eða tveggja getur ekki bara gilt af því að þær fara fyrir stórum félögum.“