„Nú hlýt ég að leiðrétta háttvirtan þingmann“

Guðmundur Ingi Kristinsson og Katrín Jakobsdóttir.
Guðmundur Ingi Kristinsson og Katrín Jakobsdóttir. Samsett mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að núverandi ríkisstjórn hafi á síðasta kjörtímabili gert meira í því að draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu en nokkur önnur um langt skreið. Hún vísaði því alfarið á bug að ríkisstjórnin væri að klekkja markvisst á öryrkjum. 

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þar sem Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, gerði frítekjumark almannatrygginga að umtalsefni.

Guðmundur benti á, að frítekjumark öryrkja sem búi einn vegna lífeyrisgreiðslu sé upp á 25.000 kr. Hann sagði að frítekjumark 25.000 kr. ætti að vera uppreiknað í dag 60.000 kr. Frítekjumark fjármagnstekna sé 90.000 kr. í dag og ætti að vera 210.000 kr. Frítekjumark atvinnutekna sé 109.600 kr. í dag en ætti að vera 256.000 kr. ef launavísitala hefði verið notuð að sögn Guðmundar. 

„Hækjurnar detta meira að segja“

„Hæstvirtur fjármálaráðherra var einnig sammála mér. Nú er forsetinn að verða sammála mér en ekkert skeður. Hvers vegna í ósköpunum eruð þið sammála þessu en gerið ekkert? Vegna þess að þetta er fólkið sem getur ekki varið sig, það getur á engan hátt varið sig. Þið eruð að tala um að leggja inn, hvað? Búið að setja 3%, ætlið að bæta við 6%. Hvaða áhrif hefur þetta? Það skerðir tekjurnar af því að frítekjumörkin fylgja ekki með. Það verða bara auknar skerðingar. Þetta fólk má ekki við því,“ sagði Guðmundur en í sömu mun féllu hækjur hans í gólfið.

„Sko, hækjurnar detta meira að segja. Ég ætti kannski að lána ríkisstjórninni þær til að halda kerfinu uppi,“ bætti hann við.

„Getur ekki komið hér og látið eins og ekkert sé að gerast“

„Nú hlýt ég að leiðrétta háttvirtan þingmann því að á síðasta kjörtímabili gerði þessi ríkisstjórn meira í því að draga úr skerðingum í þessu kerfi en nokkur önnur um langt skeið. Ég hlýt bara að minna á að fyrst var gripið til þess að draga úr skerðingum á sértakri framfærsluuppbót og síðan var dregið úr skerðingum milli bótaflokka. Það var gert. 4 milljarðar á síðasta kjörtímabili voru nýttir í það, svo að ég rifji það upp fyrir háttvirtum þingmanni,“ sagði Katrín.

„Hann getur því ekki komið hér og látið eins og ekkert sé að gerast. Hér er verið að stíga skref með því að setja sérstakt framlag til aukinnar atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega. Erum við sammála um það, háttvirtur þingmaður? Já, ég held það. Og boðað er frumvarp á vorþingi um breytingar á almannatryggingakerfinu. Háttvirtur þingmaður getur ekki komið hingað upp og dregið þá ályktun að ekkert sé að gerast, bæði miðað við söguna og líka það sem er fram undan. Það er alger staðreynd að hér hafa verið stigin stór skref í að draga úr skerðingum og það er þessi ríkisstjórn sem hefur gert það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert