Erna Ýr ekki allslaus í Úkraínu

Erna Ýr Öldudóttir fjölmiðlakona er lent í Tyrklandi og hyggst fylgjast með ástandinu í Donbass. Leiðin liggur fyrst til Rússlands en babb kom í bátinn þegar Margréti Friðriksdóttur, ritstjóra Fréttarinnar, var meinað að fljúga eftir að hafa lent í útistöðum við flugliða. 

„Þetta reddast einhvern veginn,“ segir Erna í samtali við mbl.is. Margrét var með myndatökubúnaðinn og leit því um stund út fyrir að Erna yrði allslaus í Úkraínu, en hún hefur náð að útvega sér myndatökubúnað. Vísir greindi fyrst frá málinu.

Margrét var með tösku sem innihélt myndatökubúnað og vildi hún geyma töskuna í handfarangursgeymslu, sem flugliðar féllust ekki á. Þá neitaði Margrét að bera grímu í fluginu og enduðu leikar á því að Margréti var vísað á dyr. 

Erna mun meðal annars heimsækja Donetsk.
Erna mun meðal annars heimsækja Donetsk. ANATOLII STEPANOV

Fylgjast með kosningum á hernumdum svæðum

Þáðu Erna og Margrét boð sem fjölmiðlafólki barst fyrr mánuðinum, um að ferðast til hernumdra svæða í Úkraínu, þar sem leppstjórnir hafa boðað til atkvæðagreiðslu um innlimun í Rússland. Á meðal þeirra svæða eru Donetsk, Lúgansk, Kerson og Saporitsíja.

„Það er ástæða til að fara út og fylgjast með þessu. Margir segja fyrirfram að þetta sé tóm vitleysa og falskosningar. Mér finnst skrýtið að menn séu að segja það fyrirfram án þess að fylgjast með hvernig þetta fer fram,“ segir Erna. 

„Tala við fólk og spyrja hvað því finnst“

Nú réðust Rússar inn í Úkraínu og hefur fjöldi manns látið lífið í kjölfarið. Finnst þér það ekki grafa undan trúverðugleika kosninganna?

„Blaðamenn eru að fara þarna til þess að fylgjast með því hvort einhver nauðung sé falin í þessu eða er fólk að fara með fúsum og frjálsum vilja. Ef fólk er ósátt við innrásarliðið þá hlýtur það að kjósa gegn sameiningu en ef þeir eru ánægðir með það hljóta þeir að kjósa með sameiningu.“

En heldur þú ekki að hætta sé á því að Rússar hagi úrslitunum eftir eigin vilja?

„Maður fer að athuga umgjörðina, hvort það séu eftirlitsmenn og svo framvegis. Hlutverk blaðamanna er að fara og skoða framkvæmdina að því marki sem er hægt. Það er hægt að koma þangað og tala við fólk og spyrja hvað því finnst,“ segir Erna.

Öryggi verður tryggt á staðnum að sögn Ernu. Furðar hún sig og á því að fleiri fjölmiðlar hafi ekki sent fólk á staðinn. „Þetta er gríðarlega spennandi. Ég skil ekki hvers vegna fólk hafnaði þessu boði. Það er frábært að fá þetta tækifæri,“ segir Erna í lokin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka