Staða forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands verður auglýst að skipunartíma Laufeyjar Guðjónsdóttur loknum í febrúar á næsta ári.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, endurskipaði Laufeyju fyrir fimm árum í ráðherratíð sinni sem mennta- og menningarmálaráðherra en ætlar nú að auglýsa stöðuna. Laufey var fyrst skipuð í starfið árið 2003 og hefur því sinnt því í tæpa tvo áratugi.
Við endurskoðun skipan stöðunnar, árið 2018, kom til þess að hagsmunaaðilar í kvikmyndaiðnaðinum skoruðu á ráðherra að auglýsa starfið og endurskipa Laufeyju ekki.
Snorri Þórisson, stjórnarformaður framleiðslufyrirtækisins Pegasus, lét hafa eftir sér í samtali við Vísi að eðlilegt væri að skipta um manneskju í brúnni reglulega þegar fjármunum er útdeilt í þröngan geira, eins og gert er hjá Kvikmyndamiðstöð.
Vegna mistaka í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í tíð Kristjáns Þórs Júlíussonar var skipunarbréf hennar árið 2013 ranglega dagsett 17. ágúst í stað 17. febrúar eins og hefði átt að vera. Því var endurskipan hennar það ár skráð til 17. ágúst 2018 en hefði átt að vera til 17. febrúar 2018 og frestur til að tilkynna forstöðumanni runninn út samkvæmt 23. grein laga um réttindi og skyldu opinberra starfsmanna.
Varð úr að Laufey var endurskipuð en nú hefur ráðherra tekið ákvörðun um að auglýsa starfið og hefur tilkynnt Laufeyju það eins og gert er ráð fyrir í lögum.